Auglýsingastofan Sahara er á meðal tíu bestu stafrænu markaðsstofum í Evrópu árið 2020, samkvæmt markaðstímaritinu MarTech Outlook, að því er Davíð Lúther Sigurðarson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins segir við Markaðinn.

Fram kom í Markaðnum í gær að The Engine, dótturfélag auglýsingastofunnar Pipars\TBWA, hafi komist á sama lista.

Sahara, sem á rætur að rekja til ársins 2009, gekk í Samband íslenskra auglýsingastofa síðastliðið vor. Framleiðslufyrirtækið Silent og markaðsfyrirtækið Sahara sameinuðust fyrir um fimm árum. Fyrirtækin höfðu starfað náið saman og einbeittu sér að netmarkaðssetningu en í kjölfar sameiningarinnar var boðið upp á 360 gráðu þjónustu í markaðsmálum en með ríka áherslu á stafræna markaðssetningu, að því er Davíð Lúther hefur áður sagt í viðtali við Markaðinn.