Forsvarsmenn Bankasýslunnar segjast hafa þegið vín, flugelda, konfektkassa og hádegis-og kvöldverði í kjölfarið og í aðdraganda beggja útboða. Þetta kom fram á opnum fundi í morgun í fjárlaganefnd um sölu ríkisins á hlutum í Íslandsbanka.
Formaður fjárlaganefndar, Bjarkey Olsen, spurði á fundinum hvort að Bankasýslan, stjórn hennar eða starfsmenn hefðu nýtt sér, þáð boð eða gjafir í kjölfarið eða í aðdraganda beggja útboða í Íslandsbanka.
„Nei, ég meina við fengum þarna einhverjar vínflöskur og flugelda og konfektkassa. Svo náttúrulega eru hádegisverðir og kvöldverðir með ráðgjöfum en ekkert annað,“ svaraði Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslunnar. Lárus Blöndal, stjórnarformaður Bankasýslunnar, svaraði spurningunni neitandi og sagðist ekkert hafa þegið.
Spurningin kom upp þegar ein klukkustund og 22 mínútur voru liðnar af fundinum og má sjá upptöku á vef Alþingis. Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingar, hefur vakið athygli á þessu og virðist hneyksluð, ef marka má Facebook færslu hennar.