For­svars­menn Banka­sýslunnar segjast hafa þegið vín, flug­elda, konfekt­kassa og há­degis-og kvöld­verði í kjöl­farið og í að­draganda beggja út­boða. Þetta kom fram á opnum fundi í morgun í fjár­laga­nefnd um sölu ríkisins á hlutum í Ís­lands­banka.

For­maður fjár­laga­nefndar, Bjarkey Olsen, spurði á fundinum hvort að Banka­sýslan, stjórn hennar eða starfs­menn hefðu nýtt sér, þáð boð eða gjafir í kjöl­farið eða í að­draganda beggja út­boða í Ís­lands­banka.

„Nei, ég meina við fengum þarna ein­hverjar vín­flöskur og flug­elda og konfekt­kassa. Svo náttúru­lega eru há­degis­verðir og kvöld­verðir með ráð­gjöfum en ekkert annað,“ svaraði Jón Gunnar Jóns­son, for­stjóri Banka­sýslunnar. Lárus Blön­dal, stjórnar­for­maður Banka­sýslunnar, svaraði spurningunni neitandi og sagðist ekkert hafa þegið.

Spurningin kom upp þegar ein klukku­stund og 22 mínútur voru liðnar af fundinum og má sjá upptöku á vef Alþingis. Helga Vala Helga­dóttir, þing­maður Sam­fylkingar, hefur vakið at­hygli á þessu og virðist hneyksluð, ef marka má Face­book færslu hennar.