Öldunga­deildar­þing­menn Repúblikana munu leggja það til að viku­legar at­vinnu­leysis­bætur til að bregðast við COVID-19 heimsfaraldrinum verði lækkaðar úr 600 dollurum niður í 200 dollara þar til ríki Banda­ríkjanna ná að koma marg­brotnari á­ætlun á fót en þetta hefur frétta­miðillinn The Was­hington Post eftir tveimur heimildar­mönnum sem þekkja málið en vilja ekki koma fram undir nafni.

Að því er kemur fram í frétt miðilsins er til­lagan hluti af biljón dala laga­frum­varpi sem er ætlað að takast á við efna­hags­legar af­leiðingar CO­VID-19 heims­far­aldursins. Demó­kratar innan full­trúa­deildarinnar hafa lagt til að 600 dollara bæturnar verði fram­lengdar þar til í janúar þar sem enn er tölu­vert um at­vinnu­leysi í Banda­ríkjunum en úr­ræðið rennur út innan skamms.

Í stað þess að fram­lengja úr­ræðið vilja Repúblikanar lækka upp­hæðina þar til ríki geta út­fært á­ætlun þar sem fólk fengi greitt 70 prósent af tekjum sínum en búist er við að sú á­ætlun taki við innan tveggja mánaða. Sam­kvæmt heimildar­mönnunum var á­ætlunin rædd í sím­tali milli starfs­manna flokksins í dag.

Stefnt á að kynna frumvarpið síðar í dag

Fjár­mála­ráð­herra Banda­ríkjanna, Ste­ve Mnuchin, neitaði í við­tali við Fox News í gær að til stæði að lækka bæturnar niður í á­kveðna upp­hæð heldur myndi upp­hæðin frekar reiknast eftir á­kveðinni for­múlu. Á milli 20 til 30 milljón manns í Banda­ríkjunum eru nú á at­vinnu­leysis­bætum í Banda­ríkjunum og er at­vinnu­leysi í kringum ellefu prósent.

Repúblikanar stefna á að leggja frum­varpið fram síðar í dag en leið­togi Repúblikana innan öldunga­deildarinnar, Mitch McConnel, hætti á síðustu stundu við að leggja það fram síðast­liðinn fimmtu­dag þar sem á­greiningur var til staðar um hvernig ýmsir þættir væru orðaðir í frum­varpinu, meðal annars.