Gylfi Zoega, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands og nefndarmaður í peningastefnunefnd, biður þingmenn um að fylgjast með stöðu Icelandair. Hann velti fyrir sér hvenær eigið fé íslenska flugfélagsins yrði komið á hættulegt stig og sagði að ekki mætti veðja þjóðarbúinu á að bætur fengjust frá Boeing.

Þetta kom fram í máli Gylfa á opnum fundi peningastefnunefndar með efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis í morgun. Þar fór Gylfi yfir stöðuna í hagkerfinu og varpaði fram þeirri spurningu hvað orsakaði samdrátt í ferðaþjónustu.

„Hlutfall launa af heildartekjum fyrirtækja er of hátt. Þetta á við um flugfélögin. Tvö hafa farið á hausinn nú þegar og þið þurfið að fylgjast með því þriðja,“ sagði Gylfi á fundinum og vísaði þar til Icelandair. Þá sagði hann að nú væri beðið eftir því hvað gerist hjá ferðaþjónustufyrirtækjum þegar sumarvertíðin er búin í nóvember.

„Það er hætta á að það verði ekki bara þannig að þeir veiku detti út heldur að það verði eitthvert högg,“ sagði Gylfi. Þá ítrekaði hann að hætturnar sem steðjuðu að hagkerfinu væru hremmingar ferðaþjónustunnar.

„Ég myndi sérstaklega beina athygli ykkar að því stóra flugfélagi sem við byggjum svo mikið á. Hvað er að gerast þar? Ef við reiknum fram í tímann, hvenær verður eigið féð þar komið á hættulegt stig?“ sagði Gylfi.

„Það má ekki veðja þjóðarbúinu á að við fáum bætur frá Boeing. Þetta er eitthvað sem þið verðið að huga að.“