Stjórn Orku­veitu Reykja­víkur hefur ráðið Sæ­var Frey Þráins­son, bæjar­stjóra á Akra­nesi, í starf for­stjóra fyrir­tækisins og mun hann hefja störf þann 1. apríl næst­komandi.

Bjarni Bjarna­son nú­verandi for­stjóri til­kynnti í septem­ber síðast­liðnum að hann hygðist láta af for­stjóra­starfinu eftir tólf ára starf, en hann tók við því 1. mars 2011. Starfið var í kjöl­farið aug­lýst í nóvember og 21 sótti um. Bjarni mun láta form­lega af störfum þegar Sæ­var Freyr byrjar.

„Sæ­var Freyr býr yfir mikilli reynslu og þekkingu eftir að hafa stýrt stórum fyrir­tækjum og nú síðast sveitar­fé­lagi. Hann hefur meðal annars starfað sem for­stjóri Símans, 365 miðla og nú síðast sem bæjar­stjóri. Þar sem Akra­nes­kaup­staður er einn eig­enda OR, hefur Sæ­var Freyr haft hlut­verki að gegna gagn­vart fyrir­tækinu, sem bæjar­stjóri. Hann hefur meðal annars stutt við fram­gang Car­b­fix og nýtt reynslu sína og bak­grunn í verk­efnum tengdum Ljós­leiðaranum,“ segir í tilkynningu frá Orkuveitunni.

Sæ­var er með cand.oecon gráðu í við­skipta­fræði frá Há­skóla Ís­lands með á­herslu á markaðs­mál. Starfs­reynsla Sæ­vars telur hátt í þrjá­tíu ár og hefur hann verið stjórnandi nær allan þann tíma. Hann starfaði hjá Símanum í 18 ár og þar af sjö ár sem for­stjóri á afar erfiðum tímum í ís­lensku sam­fé­lagi. Hann var for­stjóri 365 miðla í þrjú ár en frá árinu 2017 hefur hann gegnt stöðu bæjar­stjóra í heima­bæ sínum Akra­nesi.

„Það er mikið fagnaðar­efni fyrir Orku­veituna að fá Sæ­var Frey til for­ystu. Hann þekkir fyrir­tækið og verk­efni þess mjög vel og hefur langa og góða reynslu af um­fangs­miklum stjórnunar­störfum, bæði í einka­geira og hjá hinu opin­bera. Þótt Sæ­var Freyr taki við góðu búi af Bjarna Bjarna­syni, sem leiddi fyrir­tækið út úr fjár­hags­þrengingum eftir hrun, eru margar á­skoranir fram­undan í starfi Orku­veitunnar, ekki síst í lofts­lags­málunum, þar sem þarf að ná skjótum og miklum árangri. Ég hlakka til að starfa með Sæ­vari Frey og öllu starfs­fólki sam­stæðunnar við að takast á við þær,“ segir Gylfi Magnús­son stjórnar­for­maður OR.

„Ég lít fyrst og fremst á Orku­veituna sem þekkingar­fyrir­tæki sem er afar ríkt af mann­auði. Mitt hlut­verk er að styðja þetta öfluga fólk til þess að ná árangri bæði í starfi og fyrir sam­fé­lagið allt. Alla daga munum við vinna að því að auka lífs­gæði og er nú þegar horft til þeirra verka úti í hinum stóra heimi. Tæki­færin eru svo sannar­lega til staðar. Það er því mikið til­hlökkunar­efni að fá að kynnast starfs­fólki Orku­veitunnar frekar og takast á við þau mikil­vægu verk­efni sem fram undan eru,“ segir Sæ­var Freyr í tilkynningu til fjölmiðla.