Coca-Cola European Partners á Íslandi setti nýlega á markað Topp í dósum. Toppur, sem er sódavatn ýmist með bragði eða án, hefur fram til þessa einungis verið fáanlegur í plastflöskum.

Dósirnar og innihald þeirra kemur frá Svíþjóð.

„Við erum nýbyrjuð að selja topp í dós til að svara mikilli eftirspurn, það er eftirspurn eftir dósum í dag og vörum í litlum umbúðum. Við erum því miður ekki með tækjabúnað til að framleiða litlar dósir hérna í Stuðlahálsi þannig að þetta er framleitt í Svíþjóð,“ segir Stefán Magnússon, markaðsstjóri CCEP á Íslandi.

„Það er verið að nota lindarvatn sem kemur úr lind í Svíþjóð. Það eru mjög strangar gæðakröfur þarna og það er sjálfbær nýting á lindinni.“

Toppur í dós er langt frá því að vera eina erlenda sódavatnið sem selt er á Íslandi. Athygli vekur að ekki stendur sérstaklega á dósinni að um erlent vatn sé að ræða.

„Það stendur ekki á neinni pakkningu en það kemur fram á vefsíðunni okkar að toppur í dós er framleiddur í Svíþjóð,“ segir Stefán. „Fólk er almennt mjög ánægt með þetta, höfum fengið frábærar viðtökur og svörum eftirspurninni.“