Eyrún Anna Einarsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Eignastýringar og miðlunar hjá Landsbankanum.

Hver eru þín helstu áhugamál?

Ég sæki mér orku í útivist. Á veturna eru það skíðin en á sumrin finnst mér fátt betra en að standa úti í fallegri á að veiða. Eins uppgötvuðum við í sumar hversu skemmtilegt og gefandi það er að fara í lengri gönguferðir. Við gengum Víknaslóðir frá Seyðisfirði yfir í Borgarfjörð eystri og það er alveg magnað að vera í nokkurra daga göngu í óbyggðum með skemmtilegu fólki. Ég sé fyrir mér að endurtaka það aftur næsta sumar. Ég hef líka mjög gaman af vatnasporti, við höfum meðal annars verið að stunda standandi róður á vatnabretti eða svokallað SUP, það er skemmtileg upplifun að sitja með nesti úti á miðju vatni og dást að umhverfinu frá allt öðru sjónarhorni.

Hvaða bók hefur haft mest áhrif á þig?

Sú bók sem hefur haft mest áhrif á líf mitt er bók sem ég las þegar ég var 19 ára og á leið í fæðingarorlof. Hún heitir The Seasons of Life eftir Jim Rohn. Þar er lífið sett í samhengi við árstíðirnar, hvernig þú þarft að taka mið af aðstæðum og hvernig lífið er undir þér sjálfum komið. Veturnir koma eftir haustinu, sumarið kemur eftir vorinu, þú breytir því ekki. Það sem þú getur hins vegar haft áhrif á er hvernig þú nýtir vorin og sumrin í lífinu og hvernig þú bregst við þegar haustin og veturnir koma.

Hver er helstu verkefnin fram undan?

Helstu verkefnin í vinnunni næstu daga eru að taka púlsinn á fólkinu mínu. Það hefur verið rífandi gangur hjá okkur og við erum búin að ná öllum ársmarkmiðunum. Verkefni næstu viku er að stilla upp nýjum markmiðum með hópnum og keyra af stað. Það eru spennandi tímar fram undan! Hvar sérðu þig eftir tíu ár? Ég hef verið einstaklega lánsöm, unnið að fjölbreyttum verkefnum með skemmtilegu fólki innan sviðs og innan bankans. Ég þrífst á því að hafa krefjandi og fjölbreytt verkefni. Ég sé fyrir mér að eftir tíu ár verði ég áfram að vinna að fjölbreyttum og skemmtilegum verkefnum.

Ef þú þyrftir að velja annan starfsframa, hvað yrði fyrir valinu?

Mér hefur alltaf þótt orkuiðnaðurinn einstaklega áhugaverður, þá hvernig við beislum og nýtum þessa krafta. Við erum svo framarlega í þessum geira, margt sem við getum kennt öðrum þjóðum heims. Mér finnst þetta svo áhugavert út frá sjálfbærnisjónarmiðum og núverandi stöðu heimsins í umhverfis- og loftslagsmálum.

Hver er uppáhalds borgin þín?

Uppáhalds borgin mín er Verona á Ítalíu. Mér fannst borgin svo sjarmerandi, allt svo snyrtilegt og fallegt, maturinn var æðislegur, stemningin var svo lágstemmd. Ég upplifði svo mikla ró og sögu hvert sem farið var. Mér fannst Verona vera algjörlega æðisleg borg.

Helstu drættir

Nám:

B.Sc.-gráða í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands, M.Sc.-gráða í fjárfestingastjórnun frá Háskólanum í Reykjavík og próf í verðbréfaviðskiptum.

Störf:

Forstöðmaður viðskiptalausna eignastýringar og miðlunar Landsbankans. Safnastjóri í stýringareiningu eignastýringar Landsbankans. Hönnunarsvið Orkuveitu Reykjavíkur.

Fjölskylduhagir:

Gift Davíð Rúdólfssyni og eigum við þrjú börn á aldrinum 20, 15 og 12 ára.