Það gæti hæglega orðið svo að í raun verði engin breyting á regluumhverfi leigubílaaksturs á Íslandi. Þetta segir í umsögn Samtaka atvinnulífsins um nýtt lagafrumvarp er varðar akstur leigubíla.

Samtök atvinnulífsins segjast fagna því markmiði lagasetningarinnar að auka frjálsræði á leigubifreiðamarkaði á Íslandi. Hins vegar sé óvíst hvort að fyrirliggjandi frumvarp nái því markmiði.

Vandinn sé að í frumvarpinu sé gert ráð fyrir víðtækum skilyrðum fyrir útgáfu starfsleyfa, miklu eftirliti og sektarheimildum. Auk þess sé ráðherra heimilt að kveða á um frekari reglur um flest atriði frumvarpsins.

„Öryggi bílstjóra og farþega er grundvallaratriði við setningu reglna um leigubifreiðaakstur. Reynsla annarra þjóða sýnir að því markmiði er hægt að ná með öðrum leiðum en þyngri reglubyrði. Nýsköpun og nýting tækninýjunga spila þar stórt hlutverk,“ segir í umsögninni.

ESA hóf frumkvæðisathugun

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hóf frumkvæðisathugun á íslenskum leigubílamarkaði og mögulegum hindrunum að honum í janúar 2017. Í febrúar sama ár gaf ESA út rökstutt álit um leigubifreiðamarkaðinn í Noregi en honum svipar um margt til hins íslenska.

Í skýrslu starfshóps um heildarendurskoðun á íslensku regluverki um leigubifreiðar sem skipaður var af samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu haustið 2017 er niðurstaðan sú að íslenskt regluverk um leigubifreiðar brjóti jafnframt gegn þjóðréttarlegum skuldbindingum Íslands samkvæmt EES-samningnum.

Í skýrslunni koma fram tillögur hópsins sem eru grundvöllur lagafrumvarpsins, með örfáum undantekningum. Helstu breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu og eiga að uppfylla þjóðréttarlegar skyldur Íslands eru þær að afnema skuli fjöldatakmarkanir á útgefnum leyfum og stöðvarskyldu og tvenns konar leyfi verði gefin út, atvinnuleyfi og rekstrarleyfi, segir í umsögninni.

Það er ekki nægjanlegt að afnema stöðvarskyldu og fjöldatakmarkanir á útgáfu leyfa en að sama skapi þrengja skilyrði fyrir útgáfu leyfa.

Samtökin leggja til að endurskoðað verði hvort að nauðsynlegt sé að hafa tvenns konar leyfi og hvort hægt væri að sameina þau í eitt leyfi til einföldunar. Það er ekki nægjanlegt að afnema stöðvarskyldu og fjöldatakmarkanir á útgáfu leyfa en að sama skapi þrengja skilyrði fyrir útgáfu leyfa.

Að mati Samtakanna atvinnulífsins er nægjanlegt að setja þau skilyrði fyrir veitingu starfsleyfa að umsækjandi hafi gild ökuréttindi, hreint sakavottorð og að fyrirhuguð starfsemi verði skráð hjá skattayfirvöldum

Farveitur auka öryggi farþega

„Því hefur verið haldið fram að skylda bílstjóra í lögum nr. 134/2001 um leigubifreiðar, til að hafa afgreiðslu hjá bifreiðastöð sé til þess fallin að auka öryggi bílstjóra og farþega.

Reynslan af farveitum sýnir þó að með nýrri tækni er hægt að því markmiði með öðrum og minna íþyngjandi leiðum.

Í athugasemdum með greinargerð frumvarpsins er fullyrt að ekki sé verið að girða fyrir að farveitur á borð við Uber og Lyft geti starfað hér á landi.

Hins vegar er ljóst af frumvarpinu að farveitur verða að fullnægja öllum skilyrðum sem leigubifreiðastöðvar verða að uppfylla og leigubílstjórar hjá farveitum þurfa að hafa gilt rekstrarleyfi og mögulega atvinnuleyfi.

Þessi skilyrði eru meira íþyngjandi hér á landi en annars staðar þar sem slíkar farveitur starfa og skerða þar sem samkeppnishæfni íslenska markaðarins. Þægilegar og hagkvæmar samgöngur eru einn af lykilþáttum í að Ísland festi sig betur í sessi sem ferðamannaland,“ segir í umsögn Samtaka atvinnulífsins.