Samtök atvinnulífsins segja æskilegt hefði verið að stýrivextir hefðu lækkað meira en sem nam lækkun Seðlabankans í dag. Það hefði verið æskilegra að tryggja slaka í aðhaldi peningastefnunnar í ljósi þess að efnahagsslaka sem sé framundan.

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands lækkaði stýrivextir úr 4 prósentum í 3,75 prósent. Er þetta önnur vaxtalækkun bankans á skömmum tíma en vextir lækkuðu um 0,5 prósent í lok maí síðastliðnum.

„Það er bæði nauðsynlegt og æskilegt að vextir lækki áfram á næsta vaxtaákvörðunarfundi sem verður haldinn 28. ágúst nk. Gefið að verðbólguvæntingar haldist áfram nálægt verðbólgumarkmiði Seðlabankans,“ segja samtökin í tilkynningu.

Að mati Samtaka atvinnulífsins er mikilvægt að Seðlabankinn og stjórnvöld leggi sitt af mörkum til að milda niðursveifluna. „Lægri vextir auka ráðstöfunartekjur heimila og örva fjárfestingu og nýsköpun. Lægri vextir skapa auk þess svigrúm hjá fyrirtækjum til að mæta hækkandi launakostnaði vegna Lífskjarasamninga.“

Allar opinberar hagspár gera ráð fyrir að hagvöxtur í ár verði neikvæður og vísbendingar um að áfram verði slaki í hagkerfinu á því næsta, segir í tilkynningu.