Flugfélög þurfa ekki að hafa miklar áhyggjur af kyrrsetningum Boeing 737 Max-8 flugvéla að sögn matsfyrirtækisins Standard & Poor's.

„Þó að truflanir í kjölfar kyrrsetninga Boeing 737 Max-8 flugvéla hafi vakið heimsathygli sjáum við ekki fram á að þær muni hafa mikil áhrif á þau flugfélög eða leigusala sem við fylgjumst með,“ segir í orðsendingu frá Standard & Poor's, að því er norski miðillinn Dagens Næringsliv greinir frá.

„Við gætum endurskoðað mat okkar á 737 Max vélunum ef það kemur í ljós að nýleg flugslys hafi langvarandi áhrif á tryggingarverðmæti eða greiðsluþol en það kemur ekki í ljós á næstunni,“ segir matsfyrirtækið.

Bandarísk flugmálayfirvöld lýstu því yfir í gær að Boeing-flugvélar af tegundinni 737 MAX 8 og 9 yrðu kyrrsettar til að minnsta kosti maímánaðar. Icelandair hefur þegar kyrrsett sínar þrjár Boeing 737 MAX 8 þotur en áætlað er að félagið taki á móti sex slíkum til viðbótar í vor. 

Sjá einnig: Icelandair lækkar um fimm prósent

Hlutabréf í Icelandair Group hafa lækkað um meira en fimm prósent í verði í Kauphöllinni það sem af er degi eftir 0,5 prósenta hækkun í gær.