Orkupakkamálið svokallaða var afgreitt af Alþingi í vikunni. Eftir allt sem á undan var gengið hlýtur niðurstaðan að vera andstæðingum frumvarpsins mikil vonbrigði. Einungis einn stjórnarþingmaður gekk úr skaftinu, allar tilraunir til undirskriftasöfnunar mistókust hrapallega og boðuð fjöldamótmæli voru heldur máttlítil þegar á hólminn var komið.

Auðvitað hlýtur niðurstaðan að koma illa við þá sem hæst létu. Sigmundur Davíð og félagar geta þó huggað sig við að umræðan kringum Orkupakkamálið hefur komið þeim aftur á kortið að ákveðnu leyti. Klaustursmálið kálaði þeim ekki og Orkupakkinn hefur styrkt stöðu þeirra meðal sína kjarnafylgis.

Stærstu sigurvegararnir eru þó vafalaust Bjarni Benediktsson og yngra og frjálslyndara forystufólk í Sjálfstæðisflokknum. Þrátt fyrir stanslausan hárblásara úr Hádegismóum frá fyrrverandi formanni flokksins – og andlegum leiðtoga Miðflokksmanna í Sjálfstæðisflokknum – hefur þeim tekist að leiða málið til lykta.

Fyrir gamla forystumanninn og hans tryggustu skósveina hlýtur niðurstaðan að svíða. Úrslitin í forsetakosningunum 2016 virðast gefa ágætismynd af þeim kjörþokka sem kappinn ber yfir meðal yngri kjósenda. Og útbreiðsla Morgunblaðsins kannski sömuleiðis.

En svo aftur sé vikið að núverandi forystu flokksins þá er þetta mögulega leiðarvísir um hvert skuli róa í framhaldinu. Ef Sjálfstæðisflokkurinn á að vera fjöldahreyfing getur hann ekki látið fortíðardrauga koma sér í ógöngur. Sennilega er mun farsælla að tala fyrir klassískum en um leið nútímalegum hægri áherslum. Frelsi í viðskiptum, áhersla á alþjóðasamskipti og agi í ríkisrekstri eru stefnumál sem til lengri tíma munu reynast flokknum mun betur en eltingarleikurinn við popúlíska fagurgala allra flokka.

Forystan ætti að láta Miðflokkinn í Sjálfstæðisflokknum lönd og leið. Sagan af Orkupakkamálinu er nefnilega um leið saga af umræðu þar sem skynsemisraddirnar sigruðu að lokum. Óskandi er að þetta séu fyrirheit um það sem koma skal og að okkur takist að forðast okkar eigin Trump, eða Brexit.