Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, gagnrýnir pistil Oddnýjar G. Harðardóttur, þingmanns Samfylkingarinnar og ummæli hennar í fjölmiðlum um frumvarp um breytingar á samkeppnislögum. Hún segir mikilvægt að koma réttum upplýsingum á framfæri þegar ryki sé slegið í augu fólks með staðhæfingum sem ekki eiga við rök að styðjast til að afvegaleiða umræðu.

Oddný sagði í pistli á Vísi í gær að ýmis „vafasöm atriði“ væru í framvarpinu. „Verði frumvarpið að lögum mun það auðvelda samruna stórra fyrirtækja, þ.e.a.s. veltumörk tilkynningaskyldra samruna eiga að hækka verulega þannig að stórir samrunar verða ekki tilkynningaskyldir.“

Þá sagði þingmaðurinn í viðtali í Morgunblaðinu sama dag að um væri að ræða „drastískar breytingar” á veltiviðmiðunum.

Oddný G. Harðardóttir sagði að ýmis „vafasöm atriði“ væru í framvarpi um breytingar á Samkeppnislögum.

Ásta segir að umrædd hækkun á veltuviðmiðum sé til þess fallin að draga úr áherslu á smærri samrunamál og stytta þannig málsmeðferðartíma, öllum aðilum til hagsbóta. „Fæ ekki séð hvernig þetta getur verið vafasamt atriði,“ segir hún á Facebook.

Auka þarf skilvirkni

„Að auki sýna nýjustu niðurstöður úttektar IMD háskólans um samkeppnishæfni landsins að úrbóta er þörf á skilvirkni samkeppniseftirlits hér á landi,“ bendir hún á.

Ásta segir að eins og lögin standi núna þurfi fyrirtæki sem sjá hag sínum best borgið með sameiningu að tilkynna samrunann til Samkeppniseftirlitsins ef að minnsta kosti tvö fyrirtækjanna hafi yfir 200 milljóna króna ársveltu hér á landi og samanlögð ársvelta allra fyrirtækja sem vilji sameinast sé að minnsta kosti tveir milljarðar króna. Samkeppniseftirlitið sé engu að síður heimilt til að taka samruna til skoðunar sé hann líklegur til að geta dregið verulega úr virkri samkeppni.

Veltuviðmið óbreytt frá 2008

Hún bendir á að veltuviðmiðið hafi haldist óbreytt frá 2008 þrátt fyrir að verðlag hafi hækkað og hagkerfið stækkað með auknum efnahagsumsvifum. „Segja má þannig að veltuviðmiðin hafi lækkað um nærri helming án þess að tekin hafi verið ákvörðun um það – og þar með fleiri smærri fyrirtækjum gert skylt að tilkynna um samruna,“ segir Ásta.

„Segja má þannig að veltuviðmiðin hafi lækkað um nærri helming án þess að tekin hafi verið ákvörðun um það.“

Að hennar sögn hafa óbreytt viðmið leitt til þess að sá tími sem Samkeppniseftirlitið ver í samrunamál hefur farið vaxandi á milli ára þar sem þau eru lögbundin forgangsmál hjá stofnuninni.

Stofnunin ver meiri tíma í að rannsaka samruna

„Árið 2018 var 40 prósent af tíma Samkeppniseftirlitsins varið í samruna sem er um helmingi hærra hlutfall en árið 2011, þegar 21 prósent tíma eftirlitsins fór í samruna,“ segir hún.

Ásta segir nauðsynlegt að veltuviðmiðin séu hækkuð að minnsta kosti upp í sömu fjárhæð og þau voru 2008 á verðlagi dagsins í dag.

Viðmið endurskoðuð annars staðar í Evrópu

„Í framhaldinu væri síðan rétt að viðmiðin hækkuðu samhliða aukningu á landsframleiðslu, sem endurspeglar bæði verðbólgu og stækkun atvinnulífsins og þar með markaða. Sé litið til annarra Evrópulanda er ljóst að veltumörk þeirra samkeppnislaga eru endurskoðuð með reglulegu millibili og uppfærð með tilliti til umfangs viðskipta og aukningu sem skilað hefur sér út í hagkerfið. Sama fyrirkomulag ætti að eiga við hérlendis,“ segir hún.