Forstjóri Ryanair, Michael O‘Leary, sagði að hann og aðrir starfsmenn flugfélagsins muni lækka í launum um helming í ljósi þess að flug sé að leggjast nánast af tímabundið vegna kórónaveirunnar. „Við verðum að reyna að varðveita lausafé.“ Þetta kemur fram í frétt Financial Times.

Hann hefur sagt að í besta falli verði flugvélar kyrrsettar í tvo til þrjá mánuði og fyrirtækið tekjulaust á meðan. Í viðtali við Financial Times dró O'Leary í land og sagði að „hreint út sagt vitum við ekki“ hve lengi ástandið muni vara.

„Það eina sem hægt er að horfa til er reynslan í Kína. Til að fyllast von og bjartsýni. Það virðast ekki vera nein ný tilfelli af kórónaveirunni undanfarna tvo daga. Það er þremur mánuðum eftir fyrsta smit,“ sagði O‘Leary.

Flugfélög hafa kallað eftir ríkisaðstoð en alþjóðleg samtök flugfélaga hafa sagt að stór hluti þeirra muni hafa gengið á allt sitt lausafé innan tveggja mánaða.

O‘Leary sagði að Evrópusambandið yrði að vanda til verka í slíkum björgunaraðgerðum til að bjaga ekki markaðinn. Það myndi leiða til þess að vel rekin flugfélög fari að keppa við þjóðnýtt flugfélög þegar kórónaveiran hefur gengið yfir.