Viðskipti Rússneskur togari, Ozherelie, gat 6. maí síðastliðinn orðið sér úti um olíu frá Skeljungi í Hafnarfjarðarhöfn eftir að hafa verið neitað um eldsneyti hjá Olís.

Frosti Ólafsson, framkvæmdastjóri Olís, segir að stefna félagsins hafi verið að afgreiða ekki rússneska togara eftir innrásina í Úkraínu. Þegar ósk kom um að selja olíu til Rússatogarans í Hafnarfirði fyrir helgi hafi verið einfalt val að segja nei. Það hafi verið ákveðið á grunni fyrri ákvörðunar um að engin olía færi í rússnesk skip.

„Þetta er ákvörðun sem við tókum snemma í samvinnu við okkar móðurfélag, Haga. Þótt formlega hafi ekki verið rautt ljós á svona viðskipti töldum við best að selja enga olíu til þessara aðila, sem er líka í anda viðskiptaþvingana,“ segir Frosti. Hann segir að ekki hafi verið beðið ákvarðana að ofan um breytt regluverk heldur hafi félagið að eigin frumkvæði ákveðið að marka sér þessa stefnu.

Skeljungur brást öðruvísi við þegar beiðni barst frá rússneska togaranum um að fá að kaupa olíu í Hafnarfjarðarhöfn.

Þórður Guðjónsson, framkvæmdarstjór Skeljungs
Fréttablaðið/Anton

Þórður Guðjónsson, framkvæmdarstjóri Skeljungs, staðfestir að rússneski togarinn hafi fengið afgreiðslu. Hann segir að salan hafi þó ekki farið beint í gegnum Skeljung heldur í gegnum íslenskan viðskiptavin sem selt hafi olíuna til Rússanna.

Spurður hvort viðskiptin orki tvímælis á siðferðislegum grunni svarar Þórður: „Ég held að að flest sem gert er í tengslum við þessi mál orki tvímælis.“

Þórður segir að nýjar reglur hafi tekið gildi eftir að salan á olíunni til Ozherelie átti sér stað. „Við munum ekki afgreiða fleiri skip, hvort sem ósk kemur fram um það eða ekki,“ segir Þórður.

Nágrannalönd hafa hert reglur um komur rússneskra samgöngutækja. Hafnbann sem viðbragð við innrás Rússa í Úkraínu tók gildi í Noregi um helgina. Engum rússneskum skipum, stærri en fimm hundruð brúttótonn, öðrum en fiskiskipum, er nú lengur heimilt að leggjast að bryggju í Noregi. Norska ríkisútvarpið segir að bannið nái til allra flutningaskipa, snekkja og annarra skemmtiferðaskipa.

Hjá Hafnasamlagi Norðurlands segir Pétur Ólafsson hafnarstjóri að ekkert hafi heyrst af boðuðum komum frá rússneskum skemmtiferðaskipum í sumar. Óvenju hljótt sé einnig yfir snekkjukomum, en nokkuð hefur árlega verið um þær síðustu vor og sumur. Höfnin hefur því ekki þurft að taka pólitískar ákvarðanir um að synja Rússum um þjónustu.