Rússneskir auðkýfingar hafa í auknum mæli sótt til Dúbaí í Sameinuðu arabísku furstadæmunum til að forðast afleiðingar viðskiptaþvingana vesturveldanna vegna stríðsins í Úkraínu.
Yfirvöld víða, Bretlandi til dæmis, hafa gripið til þess ráðs að frysta eignir rússneskra auðjöfra sem taldir eru tengjast Vladimír Pútín Rússlandsforseta nánum böndum.
Breska ríkisútvarpið, BBC, greinir frá því að eftirspurn eftir húsnæði frá rússneskum ríkisborgurum í Dúbaí hafi aukist mjög á árinu, eða um 67% miðað við sama tíma á síðasta ári.
Sameinuðu arabísku furstadæmin hafa ekki fordæmt innrás Rússa í Úkraínu og ekki tekið þátt í refsiaðgerðum gegn landinu.
Fyrirtækið Virtuzone, sem aðstoðar erlenda ríkisborgara við að koma sér fyrir í Dúbaí, hefur aðstoðað fjölmarga Rússa undanfarna mánuði. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins, George Hojeige, segir að aukningin sé margföld á við það sem áður var.
„Þeir hafa áhyggjur af efnahagslegum afleiðingum stríðsins. Þess vegna koma þeir hingað, til að tryggja eignir sínar,“ segir George.