Rúss­land hefur fengið um 62 milljarða evra í tekjur fyrir út­flutning á elds­neyti á síðustu tveimur mánuðum, frá því stríðið í Úkraínu hófst. Það er tæp tvö­földun frá því fyrir stríðið. Landið hefur grætt á hækkuðu elds­neytis­verði þrátt fyrir að minna sé flutt út.

Landið flutti elds­neyti að and­virði 44 milljarða til Evrópu­sam­bandsins síðustu tvo mánuði, saman­borið við 140 milljarða evra allt síðasta árið, eða um 12 milljarða evra á mánuði.

Stjórn­völd margra landa hafa leitast eftir því að setja þvingur á Rúss­land vegna stríðsins en erfið­lega hefur reynst fyrir Evrópu að koma sér undan inn­flutningi frá Rúss­landi enda fá lönd í Evrópu um fjöru­tíu prósent af sínu elds­neyti frá Rúss­landi.

Út­flutningur elds­neytis frá Rúss­landi hefur dregist nokkuð saman, um allt að þrjá­tíu prósent. Minna fram­boð hefur leitt til verð­hækkana sem hafa bætt upp fyrir tap Rúss­lands með meiru.

Evrópu­sam­bandið er því í erfiðri stöðu því meiri þvinganir á elds­neyti frá Rúss­landi gæti leitt til enn meiri verð­hækkana nema dregið sé þeim mun meira úr inn­flutningi.

Þýska­land flutti mest inn af elds­neyti frá Rúss­landi síðustu tvo mánuði, eða að and­virði níu milljarða evra.

Rúss­land hefur hótað að skrúfa fyrir út­flutningi á elds­neyti til Evrópu sem við­bragð við efna­hags­þvingunum. Á mið­viku­daginn var út­flutningur til Pól­lands og Búlgaríu stöðvaður í skamma stund en hófst aftur síðar sama dag.