Russell vísitölufyrirtækið hefur upplýst að það muni færa Ísland upp í flokk vaxtarmarkaða (e. frontier market) við næstu endurskoðun í september að ári liðnu. Ísland fór á athugunarlista fyrir ári yfir lönd sem færa átti upp um flokk í ljósi þess að fjármagnshöftum var lyft hér á landi. Á meðal landa sem falla munu í sama flokk og Ísland eftir breytinguna eru Búlgaría, Eistland, Slóvakía og Malta.

Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, segir í samtali við Fréttablaðið að úr þessu mengi landa séu búnar til vísitölur, þeirra þekktust sé FTSE Frontier 50.

„Ég geri mér vonir um að á næstu árum förum við upp um einn eða tvo flokka hjá þeim,“ segir hann. „Við viljum að sjálfsögðu komast í sama flokk og hin Norðurlöndin sem er efsti flokkurinn.“

Páll segir að í raun sé ekki mikið sem vanti upp á. FTSE Russell noti 21 mælikvarða til að meta gæði markaða og Ísland uppfylli 15. Ef bankarnir og WOW air fari á íslenska hlutabréfamarkaðinn og það yrðu sæmileg viðskipti með bréfin „færum við langleiðina með að uppfylla stærð markaðarins“.

Viss gagnrýni sem varði uppgjör muni leysast þegar nýtt tölvukerfi verði innleitt á næsta ári. Færa þurfi lagaumgjörð sem varði skortstöður og lánamarkað í svipað horf og í nágrannalöndum þar sem lífeyrissjóðum og verðbréfasjóðum sé heimilt að lána verðbréf. Þá standi eftir aflandsmarkaður með krónur. „Ég geri mér vonir um að á næsta einu til þremur árum ætti að vera hægt að sigla þessum málum í höfn.“