Fót­bolta­maðurinn og Insta­gram-stjarnan Rúrik Gísla­son hefur sett á markað nýtt gin, sem ber heitið Gla­cier Gin. Drykkurinn var eitt ár í þróun þar sem eitt af megin­mark­miðunum voru að minnka hin svo­kölluðu timbur­menni sem jafnan fylgja á­fengis­drykkju.

„Stoltur eig­andi af hinu glæ­nýja Gla­cier Gin,“ segir Rúrik á Insta­gram-síðu sinni.

Ís­lenskt vatn er notað við gerð drykkjarins, auk þess sem hann er markaðs­settur út frá Ís­landi og ís­lenskri náttúru, með ís­lensku jöklana í for­grunni. Rúrik segir á Insta­gram að leitast hafi verið við að upp­fylla þrjú megin­mark­mið:

„1. Að búa til besta mögu­lega ginið í G&T [Gin og tónik]. 2. Minnka þynnku. 3. Fal­leg flaska sem fólk getur verið stolt af því að eiga,“ segir Rúrik.

Selst eins og heitar lummur

Ginið er komið í sölu í Frí­höfninni og kostar þar 3.499 krónur, en Rúrik sagði í Brennslunni á FM957 í morgun að unnið sé að því að koma flöskunni í vín­búðir.

„Þetta selst eins og heitar lummur í Frí­höfninni. Út­lendingurinn og Ís­lendingurinn virðast vera að taka mjög vel í þetta. Þetta er náttúru­lega ís­lenskt vatn, flaskan er ó­trú­lega flott og það eru mikil gæði í þessu,“ sagði Rúrik í Brennslunni.

„Ís­lendingurinn er farinn að drekka dá­lítið öðru­vísi heldur en hann gerði í gamla daga. Við viljum hafa bragðið gott og erum farin að drekka minna í einu. „Ég get lofað ykkur því að Gla­cier Gin er geggjað,“ bætti hann við.

Rúrik er bú­settur í Þýska­landi þar sem hann spilar með SV Sand­hausen. Hann hefur verið á ferða­lagi á heima­slóðum undan­farna daga með kærustu sinni, ofur­fyrir­sætunni Nat­haliu Soli­an, en hann birti í gær myndir af þeim skötu­hjúum á Sól­heima­jökli og í fjór­hjóla­ferð.