Rúna Dögg Cortez hefur verið ráðin framkvæmdastjóri hönnunarstofunnar Kolofon. Rúna hóf störf hjá Kolofon sumarið 2021 og hefur haldið utan um verkferla og umsjón viðskiptavina sem hönnunarstofustjóri stofunnar. Hún hefur einnig setið í framkvæmdastjórn frá því á síðasta ári.
Rúna er með yfir 20 ára reynslu í skapandi verkefnum, bæði hjá Brandenburg og þar áður sem framkvæmdastjóri Auglýsingamiðlunar.
„Kolofon fagnaði 5 ára afmæli sínu í byrjun febrúar og hefur starfsemi stofunnar þróast og þroskast töluvert á þeim tíma — á meðan við höfum slípað til sérþekkingu okkar, sem liggur í ásýndarhönnun og upplýsingaframsetningu. Ein helsta sérstaða stofunnar liggur í samsetningu starfsfólks hennar, blöndu af hönnuðum og forritara, og þeim áherslum í verkefnum sem sú blanda gerir okkur kleift að ná,” segir Hörður Lárusson, einn stofnenda stofunnar.
„Með því að fá Rúnu í brúnna sjáum við góð tækifæri til að halda áfram að fínstilla okkur og með því ná enn betri og skemmtilegri vinnu með öllum hópnum.”
Meðal helstu viðskiptavina Kolofon má nefna Vegagerðina, Ríkislögreglustjóra, Strætó, Isavia, Landsvirkjun, Mosfellsbæ, Reykjavíkurborg og fleiri. Með Rúnu starfa sjö á Kolofon, hönnuðir og forritari.