Fjöldauppsagnir eru meðal þeirra aðgerða sem stjórnendur SAS hafa gripið til vegna kórónuveirufaraldursins.

SAS sendi frá sér tilkynningu í morgun að um 1.600 manns verði sagt upp hjá félaginu í Danmörku.

Uppsögnin nær til 176 flugmanna, 684 flugliða, 586 starfsmanna sem vinna við innritun og farangursþjónustu, 96 flugvirkja og 51 á skrifstofu félagsins

Danska ríkisútvarpið, DR greinir frá.

Kórónaveirufaraldurinn hefur leikið félagið grátt en uppsagnirnar eru hluti af endurskipulagningu félagsins vegna erfiðleika í flugiðnaðinum.

SAS vonast til að geta endurráðið starfsmenn sína þegar eftirspurn eftir flugi eykst á ný.

Félagið gerir þó ekki ráð fyrir því að eftirspurnin muni taka almennilega við sér fyrr en árið 2022.

7.000 misst vinnuna það sem af er ári

Frá árinu 2002 hefur fjöldi starfsmanna farið úr 35.000 manns niður í 6.000. Í byrjun þessa árs voru starfsmenn um 11.000 talsins og því rúmlega 7.000 sem hafa misst vinnuna í ár.

Uppsagnir hjá stærsta flugfélagi í Skandinavíu ná ekki aðeins til starfsmanna í Danmörku. Í Svíþjóð hefur 1.900 starfsmönnum SAS verið sagt upp og í Noregi gætu rúmlega 1.300 manns misst vinnuna á næstu misserum.