Rukkað verður inn á nýja skemmti­staðinn B5 eftir klukkan 22:00. Þetta kemur fram í Insta­gram færslu hins nýja skemmti­staðar sem á enn eftir að opna. Hana má sjá hér að neðan.

Ekki kemur fram í færslunni hversu oft verður rukkað inn á staðinn í hverri viku eða um hve háa upphæð verður að ræða. Í svörum við skrif­legri fyrir­spurn Frétta­blaðsins vegna málsins segir Birgitta Líf Björns­dóttir, eig­andi staðarins, að opnun verði til­kynnt fljót­lega.

Hún segir að upp­lýsingar um hvernig staðurinn verði og þjónustu þar háttað verði gefnar út smátt og smátt á Insta­gram. Birgitta hafði ekki svarað spurningu blaðsins um hvort rukkað yrði inn á staðinn eftir klukkan 22:00 öll kvöld, þegar fréttin var birt.

Á Instagram síðu staðarins er nú verið að gefa meðlimaaðild að klúbbnum. Á Story svæðinu svokallaða stendur einfaldlega: „Vilt þú vera fyrsti meðlimur Bankastræti Club?“

Áður hefur Frétta­blaðið greint frá því að Ást­hildur Bára Jens­dóttir muni stýra staðnum á­samt Birgittu. Hún var ráðin sem rekstrar­stjóri staðarins á dögunum en staðurinn er titlaður sem Banka­stræti Club.

Birgitta Líf sagði í sam­tali við blaðið í lok maí að hún vonaðist til þess að staðurinn yrði opnaður fyrir upphaf júlímánaðar. „Það eru ýmsar endur­­bætur í gangi. Staðurinn verður flottari en nokkur hefur séð hann þegar við opnum með nýjum á­herslum,“ sagði Birgitta við til­efnið.

Á Insta­gram hefur verið hægt að fylgjast með breytingunum á staðnum. Þar mátti sjá í lok maí að tals­verðar breytingar er verið að gera á VIP-her­berginu á neðri hæðinni auk þess sem verið er að mála önnur her­bergi í dekkri lit.