Rósa Guð­bjarts­dóttir, bæjar­stjóri Hafnar­fjarðar­bæjar, segir stöðuna í ál­verinu í Straums­vík mikið á­hyggju­efni. Hún segir bæjar­yfir­völd fylgjast grannt með gangi mála. Hún segir í sam­tali við Frétta­blaðið að ljóst sé að boltinn sé hjá ríkis­valdinu.

Líkt og fram hefur komið hafa for­svars­menn Rio Tin­to greint frá því að allar leiðir verði kannaðar til að bregðast við þrengingum í rekstri ál­versins. Þar á meðal kemur til greina að loka ál­verinu al­farið. Um 500 manns vinna í ál­verinu og því ljóst að mörg störf eru í húfi.

„Við höfum auð­vitað á­hyggjur af þessu, enda al­var­legt mál að fyrir­tækið sé komið á þennan stað. Við munum fylgjast náið með þessu á næstu vikum hvað gerist gagn­vart ríkis­valdinu, því boltinn er aug­ljós­lega þar,“ segir Rósa.

Hún vísar í um­mæli for­svars­manna Rio Tin­to um hátt raf­orku­verð. Í til­kynningu fé­lagsins er vísað í Alf Barrios, for­stjóra fé­lagsins, sem segir ljóst að ál­verið sé orðið ó­arð­bært og ekki sam­keppnis­hæft í krefjandi markaðs­að­stæðum vegna hás raf­orku­kostnaðar.

For­svars­menn fyrir­tækisins hafa fundað með Bjarna Bene­dikts­syni, fjár­mála-og efna­hags­ráð­herra, vegna erfiðleikanna. Þar er mat stjórn­endanna að raf­orku­samningur frá 2010 þrengi svo að starf­seminni, að ekki verði við það lengur unað.

„Þetta er auð­vitað gríðar­lega mikil­vægt fyrir­tæki í bænum, sam­fé­laginu og í þjóð­fé­laginu. Um 500 manns þarna sem vinna hjá góðu fyrir­tæki sem hefur verið mikil­vægt í ára­tugi. Þannig það gefur auga­leið að þetta er mjög al­var­legt mál og við vonum að niður­staðan verði far­sæl fyrir alla.“

Rósa segir að bæjar­yfir­völd hafi í gegnum árin átt í mjög góðu sam­starf við ál­verið og býst hún við að þar verði engin breyting á í ár. „En þetta er á­hyggju­efni, það er víst. Ekki bara er þetta stór vinnu­staður heldur hefur hann sam­legðar­á­hrif á önnur fyrir­tæki í bænum. Svo það hefur mikla þýðingu fyrir okkur að það starfi á­fram.“