Solid Clouds, sem fjárfest hefur fyrir um milljarð í tæknigrunni til framleiðslu fjölspilunarleikja, stefnir á skráningu á First North-hliðarmarkaðinn í sumar. Stefán Gunnarsson, meðstofnandi og forstjóri Solid Clouds, segir að horft sé til þess að selja um það bil 25-30 prósenta hlut í fyrirtækinu til að fjármagna gerð tölvuleikja en næsti tölvuleikur félagsins mun koma út um mitt næsta ár. Ekki sé hægt að gefa upp hve stórt útboðið verði að svo stöddu. „Hluthafar eru 172. Þetta er því skynsamlegt næsta skref í sögu félagsins,“ segir hann.

Á meðal hluthafa Solid Clouds eru, fjárfestingafélagið Kjölur sem leiddi fjármögnun GreenQloud, Sigurður Arnljótsson, einn af stofnendum CCP, Brimgarðar sem er í eigu fjölskyldunnar sem á heildversluna Mata en hún fjárfesti líka í CCP, og Silfurberg sem er í eigu hjónanna Friðriks Steins Kristjánssonar og Ingibjargar Jónsdóttur en þau hafa fjárfest umtalsvert í sprotum. Erlendu leikjafjárfestarnir Sisu Game Venture og Vilano Capital eru jafnframt á meðal hluthafa.

Flýta leikaþróun

Það tók fjögur ár að þróa fyrsta fjölspilunartölvuleik fyrirtækisins, Sovereign Space, en stefnt er að því að það muni taka eitt og hálft ár að ljúka við gerð næsta leiks sem ber nafnið Frontiers. „Við viljum gefa út tölvuleiki á þriggja ára fresti. Það dregur úr áhættu í rekstri að hafa nokkra tekjustofna í stað þess að treysta á einn tölvuleik og eykur það verðmæti fyrirtækisins. Hluti af viðskiptamódeli okkar er að flýta þeim hraða sem það tekur að þróa leiki,“ segir Stefán.

Skjáskot úr fyrsta tölvuleik Solid Clouds, Sovereign Space.
Mynd/Aðsend

Solid Clouds er sérhæft í herkænsku- og hlutverkaleikjum. Tekjur af þeim eru hvað mestar að meðaltali á hvern spilara. „Við erum ekki geimleikjafyrirtæki, jafnvel þótt fyrstu tveir leikirnir séu af þeim toga. Við erum leikjafyrirtæki. Sá næsti verður ævintýraleikur,“ bætir hann við.

„Við erum ekki geimleikjafyrirtæki, jafnvel þótt fyrstu tveir leikirnir séu af þeim toga.“

Áætlað er að tekjurnar verði 1,6 milljarðar króna árið 2022 og um 4,4 milljarðar króna ári síðar. Reiknað er með því að hagnaður fyrir fjármagnsliði og skatta verði 173 milljónir á næsta ári, samkvæmt fjárfestakynningu sem Markaðurinn hefur undir höndum.

Stefán segir að Sovereign Space hafi að mörgu leyti gengið vel og vakið athygli. „PC Gamer, virtur fjölmiðill um tölvuleiki, sagði til dæmis að leikurinn væri einstakur í sínum flokki. Vandinn var að tekjur á hvern spilara voru að meðaltali 60 sent á dag – sem er ágætt – nema hvað sumir keppinautar okkar voru að fá töluvert meiri tekjur. Við höfum því breytt tekjumódeli Frontiers og byggir það á módeli tekjuhæstu leikja sem fá allt að þrjá Bandaríkjadali á dag að meðaltali frá notendum. Við teljum að fyrstu útgáfur Frontiers muni fá 1,6 Bandaríkjadali að meðaltali greiddar frá spilurum en stefnan er svo sett á þrjá dali,“ segir hann.

Fjölga starfsmönnum um átta

Starfsmenn Solid Clouds eru nú 17 auk erlendra verktaka en stefnt er á að fjöldinn verði 25 á næsta ári. „Ekki er horft til þess að fjölga starfsfólki hröðum skrefum með hlutafjáraukningunni,“ segir hann.

Leikjamarkaðurinn hefur vaxið um tíu prósent á ári á undanförnum árum. „Það sér ekki fyrir endann á þeim vexti á næstu tveimur áratugum. Sífellt fleiri spilarar bætast í hópinn,“ segir Stefán. Leikjaiðnaðurinn veltir nú meira en tónlist og kvikmyndahús til samans. „Næst mun leikjaiðnaður taka fram úr sjónvarpinu,“ segir hann.

Leikir mest spilaðir í farsímum

Leikjaiðnaðurinn velti um 175 milljörðum Bandaríkjadala í fyrra. Um 49 prósent af tekjunum má rekja til snjallsíma, 22 prósent til PC-tölva og 29 prósent til leikjatölva. „Frontiers verður í boði fyrir snjallsíma og PC-tölvur. Það er um 71 prósent af kökunni,“ segir Stefán.

Markaðurinn sem sótt er á er 15 milljarðar Bandaríkjadalir að stærð og einblínt er á spilara frá Vesturlöndum til að byrja með. „Það eru feikileg tækifæri framundan,“ segir hann.

Sigurlína er stjórnarformaður Solid Clouds

Sigurlína Valgerður Ingvadóttir er stjórnarformaður Solid Clouds. Hún er fyrrverandi framleiðandi tölvuleiksins FIFA sem þróaður er af Electronic Arts en hún stýrði áður framleiðslu tölvuleiksins Star Wars Battlefront og hefur unnið fyrir CCP.

Sigurlína Valgerður Ingvadóttir er stjórnarformaður Solid Clouds.
Mynd/Aðsend

Ólafur Andri Ragnarsson, sem stofnaði meðal annars Betware sem selt var til Novomatic árið 2013 fyrir um þrjá milljarða og leikjafyrirtækið Raw fury í Svíþjóð, er varaformaður. Aðrir í stjórninni eru Eggert Árni Gíslason, sem fjárfesti meðal annars í CCP og er framkvæmdastjóri Mata, Guðmundur Ingi Jónsson, annar eigandi Kjalar sem fjárfesti meðal annars í GreenQloud sem selt var á 5,3 milljarða til NetApp og Svanhvít Friðriksdóttir, sérfræðingur í almannatengslum og markaðssetningu.

Gæti valdið straumhvörfum í nýsköpun

„Nýlegir skattahvatar og ef vel gengur að skrá nokkurn fjölda frumkvöðlafyrirtækja í Kauphöll mun það saman valda straumhvörfum í nýsköpun á Íslandi,“ segir Stefán Björnsson, meðstofnandi og fjármálastjóri Solid Clouds. „Við eigum að geta þrefaldað eða fjórfaldað tækniiðnað hér á landi miðað við umsvifin á hinum Norðurlöndunum,“ bætir hann við.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kom því til leiðar að einstaklingar sem fjárfesta í sprotafyrirtækjum sem uppfylla tiltekin skilyrði fyrir allt að 15 milljónir króna geta lækkað tekjustofn sinn um 75 prósent af fjárhæðinni. „Það þýðir að þeir sem borga tekjuskatt geta fengið um 28 til 35 prósent af fjárfestingunni til baka í formi skattaafsláttar. Með þessum aðgerðum er ríkið að leggja sitt af mörkum til að draga úr áhættunni sem fólgin er í að leggja fé í sprotafyrirtæki,“ segir fjármálastjórinn.

„Skráning á markað gerir það sömuleiðis að verkum að fjárfestar geta losað um hagnað og fjárfest í öðrum frumkvöðlafyrirtækjum og koma þannig hringrás af stað. Það er mikilvægt fyrir nýsköpunarumhverfið,“ segir Stefán
Fréttablaðið/Ernir

Stefán segir að þau lönd sem vilji ná langt í nýsköpun – enda sé hagkerfum sem byggja á náttúruauðlindum sniðinn þröngur stakkur – bjóði mörg hver upp á umtalsverðan stuðning við nýsköpunarfyrirtæki. Það geri t.d. Bretar sem hafa náð miklum árangri á undanförnum árum.

Bretar stórtækir í fjárfestingum í nýsköpun

Bretar byggja stuðning sinn á þremur stoðum, að hans sögn. Öflugum tækniþróunarsjóði, endurgreiðslum af kostnaði við rannsóknir og þróun og að fjárfestar geti fengið í sumum tilvikum allt að 87,5 prósent af fjárfestingum í sprotafyrirtækjum til baka í formi skattaafslátta. „Á síðustu árum hefur Bretland siglt fram úr öðrum Evrópuþjóðum þegar litið er til fjárfestinga í ungum tæknifyrirtækjum. Fjárfestingarnar eru meiri en hjá Frakklandi og Þýskalandi til samans,“ segir Stefán.

Hann segir að 60 prósent af þeim sem fjárfesti í sprotafyrirtækjum í Bretlandi séu einstaklingar, yfirleitt efnaðir, en aðeins 17 prósent af fjárfestingunni komi frá vísisjóðum. Eins fari fyrirtæki tiltölulega snemma á markað þar í landi.

Skjáskot úr fyrsta tölvuleik Solid Clouds, Sovereign Space.
Mynd/Aðsend

Önnur lönd eins og Svíþjóð hafi beitt markaðslausnum til að örva fjárfestingu í nýsköpun „Á undanförnum árum hafa 60-90 fyrirtæki á ári verið skráð á First North-markaðinn í Svíþjóð. Þau hafa oft engar tekjur eða eru ekki farin að skila hagnaði. Þeir sem greiða í sænska lífeyrissjóði er boðið að leggja lítinn hluta af sparnaðinum í vaxtarfyrirtæki. Slíkt getur gefið betri ávöxtun og frumkvöðlafyrirtæki fylgja oft ekki sömu verðsveiflum á hlutabréfaverði og hefðbundin rekstrarfyrirtæki. Ef okkur mun vegna jafn vel og Svíþjóð að þessu leyti ætti að vera hægt að skrá þrjú til fjögur sprotafyrirtæki á ári í Kauphöllina,“ segir Stefán.

Skráning kemur hringrásinni af stað

Forstjóri og fjármálastjóri Solid Clouds tóku þátt í fyrsta hlutafjárútboði CCP tölvuleikjaframleiðandans. Þeir hefðu kosið að fleiri nýsköpunarfyrirtæki hefði farið á markað. „Skráning á markað gerir það sömuleiðis að verkum að fjárfestar geta losað um hagnað og fjárfest í öðrum frumkvöðlafyrirtækjum og koma þannig hringrás af stað. Það er mikilvægt fyrir nýsköpunarumhverfið,“ segir Stefán