Robyn Denholm hefur verið skipuð stjórnarformaður Teslu í stað Elon Musks, forstjóra og stofnanda fyrirtækisins. Hún hefur setið í stjórn rafbílaframleiðandans frá árinu 2014 en hefur minni tengsl við stofnandann en flestir aðrir í stjórninni. Þetta kemur fram í frétt The Wall Street Journal.

Samkvæmt sátt sem Musk gerði við Verðbréfaeftirlitið var ákveðið að hann myndi stíga til hliðar sem stjórnarformaður Teslu í kjölfar þess að hann sagði á Twitter í ágúst að hann hefði tryggt fjármögnun til að taka fyrirtækið af hlutabréfamarkaði. Musk verður áfram forstjóri rafbílaframleiðandans. 

Eftirlitið sagði að Musk hefði ekki tryggt fjármögnun og að hann hefði valið yfirtökugengið 420  - sem er vísun til kannabisnotkunar - til að hrífa kærstuna sína.

 

Denholm er fjármálastjóri ástralska fjarskiptafyrirtækisins Telstra en hún mun láta af því starfi í maí. Hún hefur gegnt því starfi í tæplega tvö ár og leikið lykilhlutverk í að endurskipuleggja fyrirtækið, sem áður var í ríkiseigu, á sama tíma og mikil samkeppni ríkir á heimamarkaðnum. Á meðal verkefnanna er að fækka starfsfólki, sem eru 32 þúsund, um fjórðung og selja eignir sem heyra ekki til kjarnastarfsemi.

Fjölmiðlar í Ástralíu hafa á undanförnum vikum spurt umburði hennar til að sinna bæði Telstra og Teslu, sem hefur glímt við mikla erfiðleika undanfarna mánuði.

Musk segir í tilkynningu að Denholm hafi reynslu úr tækniheiminum og úr bílaiðnaði. Hún hún hefur unnið meðal annars hjá Juniper Networks, Sun Microsystems og hjá Toyota.