Innlent

Róbert Spanó og forsetar tækju sæti í yfirdeild

Róbert Spanó dómari við Mannréttindadómstól Evrópu, tæki sæti í yfirdeild dómsins fari Landsréttarmálið þangað. Þar sitja einnig forseti dómstólsins og forseti deildarinnar sem dæmdi málið. Hann skilaði séráliti í málinu.

Bið eftir ákvörðun um endurskoðun gæti tekið sex mánuði. Afp

Róbert Spanó, dómari við Mannréttindadómstól Evrópu, mun sitja í yfirdeild dómstólsins fari svo að málið verði tekið til endurskoðunar þar.

Reglur Mannréttindasáttmála Evrópu gera ráð fyrir því að sá dómari, sem kosinn er af ríkinu sem á aðild að dómsmáli, sé ætíð sjálfskipaður til að sitja í dómi um það mál.

Sé máli vísað til yfirdeildar situr hann einnig í 17 manna dómi sem dæmir málið þar. Að öðru leyti er yfirdeildin skipuð dómurum sem ekki dæmdu málið í undirdeild að undanskildum forseta deildar og forseta dómstólsins sem á ávallt sæti í dómum yfirdeildar. Fari Landsréttarmálið til yfirdeildar mun því Róbert Spanó sitja í þeim dómi.

Forseti og varaforsetar ávallt í yfirdeild

Því hefur verið haldið fram í opinberri umræðu að forseti Mannréttindadómstólsins hafi skilað séráliti í Landsréttarmálinu. Svo er þó ekki enda sat hann ekki í dóminum sem dæmdi málið. Hins vegar skilaði forseti þeirrar dómdeildar sem dæmdi málið, Paul Lemmens, séráliti og mun hann, auk Róberts Spanó, einnig taka sæti í yfirdeild, verði málið tekið fyrir þar.

Nefnd sem skipuð er af yfirdeildinni og ákveður hvort fallist er á beiðnir um endurskoðun mála hittist að jafnaði sex sinnum á ári og því má gera ráð fyrir að fimm til sex mánuðir líði áður en fyrir liggur hvort yfirdeildin tekur Landsréttarmálið til endurskoðunar, að teknu tilliti til þriggja mánaða frests sem ríkið hefur til að taka ákvörðun um hvort málinu verður vísað þangað.

Mánaðabið framundan

Með vísan til þess að dómstóllinn féllst á beiðni um flýtimeðferð Landsréttarmálsins og að dómur féll í málinu tæpu ári eftir að það barst réttinum, og með tilliti til mögulegra fordæmisáhrifa dómsins, verður að telja líklegra en ekki að yfirdeild dómstólsins fallist á að taka málið til skoðunar að nýju.

Þar sem yfirdeildin tekur aðeins að sér mál sem teljast alvarleg fyrir túlkun eða framkvæmd Mannréttindasáttmálans eða varða alvarleg deiluefni sem teljast mikilvæg í almennu tilliti, verður varla um það að ræða að Landsréttarmálið fái þar sérstaka flýtimeðferð umfram önnur mál sem samþykkt er á annað borð að fái efnismeðferð. Ekki hefur verið ákveðið hvort íslenska ríkið mun óska endurskoðunar á dóminum en fráfarandi dómsmálaráðherra leggur mikla áherslu á að leitað verði eftir endurskoðun. 

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Innlent

Bætti við sig í Marel fyrir 550 milljónir

Innlent

Gert að greiða slita­búi Lands­bankans 30 milljónir evra

Innlent

Tanya Zharov kemur ný inn í stjórn Sýnar

Auglýsing

Nýjast

JP Morgan notast við taugavísindi í ráðningum

Fjárfestar setja skilyrði um #MeToo ákvæði

4,4 milljóna gjald­þrot pítsu­staðar

„Berja bumbur með slagorðum úr kommúnískri fortíð“

Segir skilninginn ríkari hjá norskum stjórn­mála­mönnum

Worldpay selt fyrir 43 milljarða dala

Auglýsing