Lilja Þorsteinsdóttir er framkvæmdastjóri tækni- og markaðssetningarfyrirtækisins Svartagaldurs sem stofnað var í haust. Hún segir Svartagaldur vera á fullu í að þróa leiðir fyrir íslensk fyrirtæki til að markaðssetja sig á netinu í Kína.

Hvernig er morgunrútínan þín?

Mér skilst það sé frábært að vera morgunhani, hugleiða og stunda jóga á morgnana. Ég verð samt að viðurkenna að ég er týpan sem fer á fætur á síðustu stundu, innbyrði óhemjumikið magn af kaffi, geri mig klára og rýk beint í vinnuna. Kannski kemur þetta með aldrinum.

Hver eru þín helstu áhugamál?

Ég hef mikinn áhuga á tækni, hinum ýmsu græjum, vefmálum og auðvitað markaðssetningu á netinu. Ég vinn ekki bara við hana heldur eyði líka frítíma í að lesa mér til, prófa nýjar aðferðir á hinum ýmsu vefjum sem ég held úti og reyni að finna út hvað virkar best hverju sinni. Auðvitað finnst mér best að eyða tíma með fjölskyldunni og hundinum mínum og reyni að gera sem mest af því. En svo hef ég líka alltaf spilað mikið af tölvuleikjum síðan ég var krakki og það hefur ekkert breyst. Ég elska sci-fi þætti og bíómyndir. Ef það er geimvera eða heimsendir á bíótjaldinu, þá er ég mætt á svæðið.

Hvaða bók ert þú að lesa eða last síðast?

Síðasta bókin sem ég kíkti í er The Startup Owner’s Manual eftir Steve Blank. Ég las hana í meistaranáminu í nýsköpun og viðskiptaþróun við HÍ, hún hefur reynst mér mjög gagnleg og ég fletti stundum upp í henni. Steve er líka með fyrirlestra á Udemy sem ég mæli með fyrir alla sem eru að þróa nýja vöru eða stofna fyrirtæki. Mér finnst samt skemmtilegra að lesa blogg, fréttir, pistla og styttri texta, jafnvel að hlusta á hlaðvörp. Það er helst að ég grípi í góðan krimma eða sögulegar skáldsögur þegar ég er að slaka á í sveitinni. Sú síðasta var Heimanfylgja eftir Steinunni Jóhannesdóttur um líf Hallgríms Péturssonar.

Ef þú þyrftir að velja allt annan starfsframa, hvað yrði fyrir valinu?

Ég er svo lánsöm að vera í draumastarfinu mínu svo ég leiði ekki hugann mikið að öðrum starfsframa. Ég ætlaði alltaf að verða rithöfundur og er svo heppin að textagerð er stundum hluti af vinnunni minni þannig að ég fæ útrás fyrir þörfina.

Hvað er það áhugaverðasta við að starfa í atvinnugreininni?

Ég veit varla hvar ég á að byrja, það er svo margt. Í fyrsta lagi er svo ótrúlega áhugavert og skemmtilegt að vinna í skapandi geira og hitta daglega fólk sem hugsar ekki alveg eins og flest annað fólk. Ég meina þetta á góðan hátt. Í öðru lagi er áhugavert að fylgjast með þeim öra vexti sem er í markaðssetningu á netinu. Fyrirtæki í öllum geirum og af öllum stærðargráðum eru að átta sig á því að það þýðir ekki að hjakka í sama farinu í markaðssetningu árið 2019 og leita til okkar til að fá ráðgjöf. Það er svo margt hægt að gera sniðugt til að skáka samkeppninni á netinu og þar koma galdrarnir okkar og reynsla sterk inn.

Hverjar eru helstu áskoranirnar í starfinu?

Það eru stundum einfaldir hlutir eins og að halda einbeitingunni í hraðanum og fjöruga starfsandanum sem þrífst hjá okkur. Ég er þakklát fyrir hljóðeinangrandi heyrnartól. Auðvitað hefur það verið skemmtileg áskorun að fara af stað með nýtt markaðsfyrirtæki. Við erum jú bara búin að starfa í tæpt hálft ár og höfum verið að púsla saman nýjum verkefnum, innleiðingum, slípa til verkferla og koma okkur á framfæri. En það hefur allt gengið vonum framar.

Hverjar eru helstu áskoranirnar í rekstrarumhverfinu í dag?

Ætli ég verði ekki að nefna að líkt og hjá öðrum fyrirtækjum þar sem laun vega þungt eru launatengdu gjöldin stór biti. Það myndi hjálpa nýstofnuðum fyrirtækjum að komast á koppinn að veita meira svigrúm þar. Við erum líka að þróa tæknilausnir í markaðsgeiranum og ég myndi vilja sjá nýsköpunar- og tæknifyrirtæki fá mun meiri stuðning en þau fá nú.

Hvaða breytingar sérðu fyrir þér í atvinnugreininni á komandi árum og í hverju felast helstu sóknartækifærin?

Markaðssetning á netinu breytist svo ört að við þurfum að hafa okkur öll við til að vera með allt á hreinu. Leitarvélar eins og Google breyta algríminu sínu mjög oft og eitthvað sem virkaði í leitarvélabestun fyrir hálfu ári virkar ekki endilega í dag. Að sama skapi breytast kerfi fyrir auglýsingar á netinu oft þannig að við erum alltaf að læra nýja hluti og atvinnugreinin er í stöðugri mótun. Sóknartækifæri okkar liggja í margar áttir en í augnablikinu erum við til dæmis á fullu að þróa leiðir fyrir íslensk fyrirtæki til að markaðssetja sig á netinu í Kína.

Helstu drættir

Nám

BA í stjórnmálafræði, MPA í opinberri stjórnsýslu, ólokið meistaranám í nýsköpun og viðskiptaþróun.

Störf 

Framkvæmdastjóri Svartagaldurs ehf. sem sér um alhliða markaðssetningu á netinu og þróar einnig hugbúnaðarlausnir á því sviði. Ég stofnaði líka heilsutengt nýsköpunarfyrirtæki árið 2011 sem fær að malla í rólegheitunum og ég dúlla mér í frítíma í einni eða tveimur vefverslunum sem ég setti upp.

Fjölskylduhagir 

Ég er gift og á þrjár dætur á aldrinum 8-16 ára. Með fullri virðingu fyrir þeim verð ég að segja að ég á líka sætasta gula Labrador í heimi sem heitir Ender.