Á aðalfundi Samtaka iðnaðarins í morgun var Guðrún Hafsteinsdóttir, Kjörís, endurkjörin formaður með 95,90 prósent greiddra atkvæða. Guðrún verður formaður Samtaka iðnaðarins fram til Iðnþings 2020.

Alls gáfu sjö kost á sér til almennrar stjórnarsetur og var kosið um fjögur sæti. Þeir sem setjast í stjórn Samtaka iðnaðarins til næstu tveggja ára eru Ágúst Þór Pétursson, húsasmíðameistari, Guðrún Halla Finnsdóttir, verkefnastjóri viðskiptaþróunar Norðuráls, Magnús Hilmar Helgason, framkvæmdastjóri Launafls í Fjarðabyggð og Sigurður R. Ragnarsson, forstjóri ÍAV.

Sigurður situr áfram í stjórn en nýir stjórnarmenn eru Ágúst Þór, Guðrún Halla og Magnús Hilmar. Úr stjórn fara Katrín Pétursdóttir hjá Lýsi, Lárus Andri Jónsson hjá Rafþjónustunni og Ragnar Guðmundsson hjá Norðuráli.

Fyrir í stjórn Samtaka iðnaðarins eru Árni Sigurjónsson hjá Marel, Birgir Örn Birgisson hjá Pizza-Pizza, Egill Jónsson hjá Össuri, María Bragadóttir hjá Alvogen Iceland og Valgerður Hrund Skúladóttir hjá Sensa.