Álver Rio Tinto í Straumsvík er nú fært til bókar á tæpa 18 milljarða króna, að því er kemur fram í uppgjöri Rio Tinto fyrir árið 2020. Fram kemur í skýringum með uppgjörinu að nýr raforkusamningur við Landsvirkjun hafi gert álverið samkeppnishæft á ný. Í ljósi nýs raforkusamnings og hærra verðs á álmörkuðum sé Straumsvík nú metin á 139 milljónir dollara.

„Þann 15.febrúar náðum við samkomulagi um breytingar á raforkusamningi við Landsvirkjun, sem mun gera ISAL kleift að starfa á betri forsendum samkeppnishæfni. Við höfum dregið til baka kvörtun okkar til íslenska samkeppniseftirlitsins,“ segir í uppgjörinu.

Rio Tinto mun greiða hluthöfum sínum hæsta arð í sögu fyrirtækisins vegna rekstrarársins 2020, eða níu milljarða dollara. Það samsvarar um 1152 milljörðum króna. Í samanburði er verg landsframleiðsla Íslands á árinu 2020 áætluð tæplega 2900 milljarðar króna.

Há arðgreiðsla Rio Tinto skýrist af miklum verðhækkunum á hrávörumörkuðum. Mikilvægasta söluvara Rio Tinto er járngrýti, en verð þeirrar vöru hækkaði um 85 prósent á síðasta ári vegna mikillar eftirspurnar frá Kína.

Aukning í vinnslu járngrýtis á vegum Rio Tinto á síðasta ári var þó hjúpuð deilumálum, en fyrirtækið lagði í rúst einn helgistaða frumbyggja í vesturhluta Ástralíu til að rýma fyrir stækkun á járngrýtisnámu. Í kjölfarið urðu forstjóraskipti hjá félaginu.

Nýr forstjóri, Daninn Jakob Stausholm, lagði mikla áherslu á að ná sáttum við ættbálka frumbyggja í Vestur-Ástralíu. Við kynningu uppgjörs ársins 2020 fyrr í morgun sagðist forstjórinn hafa fundað með frumbyggjum persónulega til að ná sáttum, en hann hafði áður lýst eyðileggingu helgistaðarins sem „dimmum degi í sögu Rio Tinto.“