Rio Tinto segja að fyrirtækið hafi boðið starfsmönnum sínum 24 þúsund króna launahækkun til samræmis við Lífskjarasamninginn, en því hafi verið hafnað af þeim stéttarfélögum sem sitja við samningaborðið. Þetta segir Bjarni Már Gylfason, upplýsingafulltrúi Rio Tinto í Straumsvík.

„ISAL leggur áherslu á að ljúka kjarasamningum við starfsfólk sitt og að það njóti kjarabóta í samræmi við það sem gengur og gerist á markaðnum jafnvel þótt staða fyrirtækisins sé mjög erfið. Fyrirtækið hefur boðið stéttarfélögum hækkun upp á 24.000 krónur á regluleg laun í samræmi við Lífskjarasamninginn sem þau hafa hafnað og kjósa nú um um aðgerðir. Krafa stéttarfélaganna eru prósentuhækkanir sem þýða hæstu launin hækka mest en það er ósamræmi við markmið Lífskjarasamningsins,“ segir Bjarni Már.

Hann bætir því að ekki sé hægt að upplýsa um hvaða aðgerðir Rio Tinto muni grípa til ef til verkfalls kemur.

Sú sviðsmynd Lífskjarasamningana sem gerir ráð fyrir minnstum hagvexti og sú sem liggur til grundvallar þeim hækkunum sem eiga að koma til framkvæmda á þessu ári, gerir ráð fyrir 24 þúsund króna launahækkun. Á næsta ári kveða samningarnir svo á um 25 þúsund króna launahækkun.