Hrávöruframleiðandinn Rio Tinto, sem á stóran meirihluta í álverinu við Tiwai Point á Nýja-Sjálandi, hefur náð samningum við Meridian Energy um raforkukaup fram til ársins 2024. Áður hafði verið tilkynnt að álverið myndi loka síðar á þessu ári. Frá þessu er greint í nýsjálenskum fjölmiðlum.

Meridian Energy er í meirihlutaeigu nýsjálenska ríkisins, en deilur um raforkuverð og flutningskostnað hafa staðið yfir milli Rio Tinto og yfirvalda á Nýja-Sjálandi um margra ára skeið. Deilur um orkukostnað, og einkum og sér í lagi flutningskostnað álversins við Tiwai Point, hafa staðið yfir allt frá árinu 2012.

Náðst hefur fullt samkomulag um raforkuverð, en viðræður um flutningskostnað standa ennþá yfir. Engu að síður er engar líkur taldar á öðru en að álverið starfi að minnsta kosti þrjú ár í viðbót.

Tiwai Point hóf álframleiðslu árið 1971. Upphafleg framleiðslugeta þess var um 153 þúsund tonn á ári, en síðan þá hefur álverið verið stækkað nokkrum sinnum og full afkastageta í dag nemur um 330 þúsund tonnum. Að því er kemur fram í umfjöllun nýsjálenska blaðamannsins Richard Harman, tapaði álverið við Tiwai Point um 46 milljónum dala á árinu 2019, eða um 6,5 milljörðum króna. Til samanburðar tapaði álverið í Straumsvík um 13 milljörðum króna á síðasta ári, en er framleiðslugeta Straumsvíkur þó nærri helmingi minni en Tiwai Point.