Rio Tinto Alcan hefur afskrifað álverið í Straumsvík af sínum bókum og telja virði þess nú ekkert. Alls nemur afskriftin 269 milljónum Bandaríkjadala, eða sem nemur 36 milljörðum króna. Þetta kemur fram í uppgjöri félagsins fyrir fyrri helming árs 2020.

Í skýringum með ársreikningnum kemur fram að fyrirtækið hafi gert margar tilraunir til „að eiga í uppbyggilegum viðræðum við Landsvirkjun, en hafi nú komist að þeirri niðurstöðu að Landsvirkjun sé ekki reiðubúin að lækka raforkuverð [til ÍSAL] sem einhverju nemur.“

Að sama skapi ræðir Rio Tinto kvörtun sína gagnvart Landsvirkjun sem send var inn til Samkeppniseftirlitsins er snýr að markaðsráðandi stöðu Landsvirkjunar. Jafnfram segir Rio Tinto að ef ekki náist að gera bragarbót á stöðu þeirra gagnvart Landsvirkjun sé fyrirtækinu sá eini kostur mögulegur að slíta raforkusamningnum og hefja lokun álversins.

Þrátt fyrir að Rio Tinto hafi afskrifað álverið í Straumsvík að fullu telja þeir virði fasteigna og ýmiss tækjabúnaðar nema um 109 milljónum dala. Hins vegar telja þeir enga verðmætasköpun mögulega í Straumsvík miðað við núverandi aðstæður og eru því allar eignir afskrifaðar að fullu.

Rio Tinto lokaði nýverið einu álvera sinna við Tiwai Point á Nýja-Sjálandi. Að því er kemur fram í umfjöllun nýsjálenska blaðamannsins Richard Harman, tapaði álverið við Tiwai Point um 46 milljónum dala á árinu 2019, eða um 6,5 milljörðum króna. Til samanburðar tapaði álverið í Straumsvík um 13 milljörðum króna á síðasta ári, en er framleiðslugeta Straumsvíkur þó nærri helmingi minni en Tiwai Point.