„Ég held að ríkisstjórnin geti valdið því að það verði ekki súrefni í hagkerfinu fyrir atvinnulífið.“ Þetta sagði Finnur Árnason, forstjóri Haga sem tók þátt í pallborðsumræðum á Peningamálafundi Viðskiptaráðs.

Hann sagði að búið væri að leggja grundvöll að mjúkri lendingu og viðspyrnu. Aftur á móti sé búið að dæma banka út af lánamarkaði með bankaskattinum.

Skuldabréfaútgáfa í stað bankaláns

Nýverið réðust Hagar í útgáfu skuldabréfa á skuldabréfamarkaði. Finnur sagði að fyrirtækinu hafi ekki boðist bankalán á kjörum sem stjórnendur fyrirtækisins sóttust eftir.

Hann óttist að til lengri tíma að bankakerfið verið ekki samkeppnisfært vegna bankaskattsins. „Það mun bitna verulega á fyrirtækjum sem hafa ekki aðra valkosti,“ sagði Finnur.

Heimatilbúinn vandi

Hann sagði að við hljótum fagna vaxtalækkunum að ákveðnu marki, bæði fyrir heimili og atvinnulíf. „Ég held að það þurfi að horfa á þann heimatilbúna vanda sem er kallaður bankaskattur en er bara skattur á heimili og fyrirtæki.“