Efnahagslegar aðgerðir ríkisstjórnarinnar munu kosta 230 milljarða króna, jafngildi 8 prósenta af landsframleiðslu. Ríkið mun meðal annars tryggja brúarlán til fyrirtækja í rekstrarvanda að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.

Þetta kom fram á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar rétt í þessu. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, kynntu efnahagslegar aðgerðir stjórnvalda vegna heimsfaraldurs COVID-19.

Fyrirtækjum verður gefinn kostur á að fresta greiðslum opinberra gjalda til næsta árs til að bæta lausafjárstöðu í atvinnurekstri og gistináttaskattur verður afnuminn til ársloka 2021. Útlánasvigrúm verður aukið með lækkun bankaskatts og ríkisábyrgð á lánum til lífvænlegra fyrirtækja, sem er ætlað að auðvelda þeim að standa í skilum, sérstaklega vegna launagreiðslna.

„Með þessu erum við að fylgja fordæmi margar Evrópuríkja sem hafa staðið fyrir því að ríkið – í þessu tilfelli munum við gera það gegnum seðlabankann – tryggir ákveðna ábyrgð á lánveitingum fjármálafyrirtækja til fyrirtækja,“ sagði Katrín Jakobsdóttir á fundinum.

Katrín Jakobsdóttir.jpg

Stjórnvöld munu í krafti hlutastarfaleiðarinnar greiða allt að 75 prósent launa starfsfólks sem lækkar í starfshlutfalli, að hámarki 700 þúsund krónur, og gera þannig  launafólki og atvinnurekendum kleift að halda ráðningarsambandi. Úrræðið gildir næstu tvo og hálfan mánuð en reynslan af úrræðinu verður endurmetin í maí.

Stjórnvöld munu ráðast í fleiri aðgerðir sem ætlað er að ýta undir eftirspurn og örva efnahagslífið.

„Þar vil ég nefna sérstaklega barnabótaauka til fólksins í landinu sem á börn. Við vitum að þar er mikið álag um þessar mundir þar sem allt venjulegt skólastarf er úr lagi gengið. Og við horfum til þess að á vormánuðum verði greiddur sérstakur barnabótaukai til alls barnafólks á Íslandi. Tekjutengdur og skattfrjáls,“ sagði Katrín en barnabótaaukinn veðrur greiddur út 1. júní. Foreldrar með lægri meðaltekjur en 927 þúsund krónur á mánuði árið 2019 fá 40 þúsund krónur á hvert barn og aðrir 20 þúsund krónur.

Enn stærra átak í fjárfestingum

Þá mun ríkisstjórnin flýta framkvæmdum sem eru hluti af fjárfestingaátakinu sem áður hafði verið greint frá. Hið opinbera og félög þess setja aukinn kraft í samgöngubætur, fasteignaframkvæmdir, og upplýsingatækni, auk þess sem framlög verða aukin í vísinda- og nýsköpunarsjóði.

„Ríkisstjórnin hafði áður greint frá því að við hyggjumst auka opinbera fjárfestingu á næstu árum til að vinna gegn slaka í efnahagslífinu. Þessar fordæmalausu aðstæður gera það að verkum að við ákváðum að flýta framkvæmdum ríkissjóðs og opinberra félaga sem nemur 20 milljörðum króna á þessu ári sem bætast ofan á þá 75 milljarða sem við höfum þegar eyrnamerkt í opinbera fjárfestingu,“ sagði Katrín.

Einnig verður veitt heimild til að taka út séreignarsparnað að hámarki 800 þúsund krónur á mánuði í 15 mánuði og endurgreiðslur vegna viðhaldsvinnu við heimili og frístundahúsnæði hækkaðar í úr 60 prósentum í 100 prósent. Endurgreiðsluúrræðið verður útvíkkað til heimilisþjónustu og tekin upp ný heimild fyrir þriðja geirann svokallaða, sem nær m.a. til almannaheilla- og íþróttafélaga, til endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu fólks við byggingaframkvæmdir á þeirra vegum.