Ríkisstjórn Noregs styður nýja aðgerðaráætlun til að bjarga flugfélaginu Norwegian Air Shuttle frá gjaldþroti. Ríkisstjórnin segist jákvæð gagnvart því að flugfélagið leggi nú áherslu á Norðurlöndin og sé hætt að fljúga yfir Atlantshafið til Bandaríkjanna, eins að það hyggist draga verulega úr skuldsetningu og safna nýju hlutafé. Þetta kemur fram í frétt Financial Times.

Ríkið mun lána Norwegian að því gefnu að flugfélagið safni að minnsta kosti fjórum til fimm milljörðum norskra króna frá fjárfestum og ljúki við endurskipulagningu sem dragi úr skuldsetningu.

„Aðgerðaráætlunin er betri en sú sem við höfnuðum í október,“ sagði Iselin Nybo viðskiptaráðherra Noregs.

Eftir að ríkisstjórnin hafnaði því að bjarga Norwegian í haust fór flugfélagið í skuldaskjól frá lánadrottnum í Írlandi og Noregi.

Skuldir Norwegian jukust verulega við það að hefja áætlunarflug til Bandaríkjanna og Asíu og því stóð félagið á brauðfótum þegar COVID-19 heimsfaraldurinn blossaði upp og umsvif í ferðaþjónustu urðu nánast engin.

Norwegian sagði í síðustu viku að það myndi fækka störfum um tvö þúsund samhliða því að flugfélagið leggi nú höfuðáherslu á Norðurlöndin og að fljúga þaðan til Evrópu.

Núverandi hluthafar verða nánast þurrkaðir út í annað skiptið á einu ári og munu þeir eiga um fimm prósenta hlut að endurskipulagningu lokinni. Lánadrottnar munu eignast um fjórðung af hlutafénu og við það munu skuldirnar lækka úr 48 milljörðum norskra króna í um 20 milljarða norskra króna. Eins á að safna um fjórum til fimm milljörðum norskra króna í hlutafé, eins og fram hefur komið. Við það munu þeir sem taka þátt í hlutafjárútboðinu eignast um 70 prósenta hlut í Norwegian.