Halli á ríkissjóði gæti aukist um allt að 45 til 55 milljarðar miðað við stefnuskrá Vinstri grænna og aukist um 224-274 milljarða miðað við stefnu Sósíalistaflokksins, samkvæmt greiningu Samtaka atvinnulífsins og Viðskiptaráðs. Til samanburðar gerir fjármálaáætlun ráð fyrir að afkoma ríkissjóðs verði neikvæð um 320 milljarða króna í ár, eða 10,2 prósent af landsframleiðslu. Þess vegna má gera ráð fyrir að hallinn yrði 365 til 594 milljarðar króna.

Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð Íslands tóku saman helstu breytingar á ríkisfjármálum sem stefnur stjórnmálaflokkanna fela í sér. Útgjaldaaukandi loforð eru margfalt fleiri en tekjuaukandi svo óskað var eftir upplýsingum frá flokkunum sjálfum um hvernig tekjur, gjöld og afkoma væru ef tiltekinn flokkur væri við völd. Þeir fjórir flokkar sem svöruðu erindinu, Píratar, Samfylking, Sjálfstæðisflokkur og Viðreisn, gera ráð fyrir allt frá lítillega auknum halla eða verulega bættri afkomu.

Ef horft er fram hjá bættum efnahagsforsendum hjá Viðreisn og Pírötum gera allir flokkar nema Sjálfstæðisflokkur ráð fyrir auknum halla, samkvæmt greiningu Samtaka atvinnulífsins og Viðskiptaráðs.

Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð.

„Ef markmiðum í ríkisfjármálum er ekki náð getur það leitt til þess að forgangsröðun breytist, halli aukist og mikilvægri þjónustu verði stefnt í hættu. Ef bilið er brúað með aukinni og ósjálfbærri lántöku eykst fjármögnunarkostnaður, sem skilur minni fjármuni eftir til grunnþjónustu, og lánakjör geta farið versnandi. Slík þróun grefur undan trausti almennings og lánveitenda. Að auki er mikilvægt að ríkisfjármálastefnan sé ekki þensluhvetjandi á uppgangstímum og kyndi þannig undir verðbólgu sem leitt getur til vaxtahækkana. Þetta á sérstaklega vel við nú um stundir þegar viðspyrna er hafin eftir að ríkið hefur stutt myndarlega við hagkerfið,“ segir í greiningunni.

Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð.

Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð tóku saman loforð flokkanna sem fólu í sér annars vegar aukin útgjöld og samdrátt tekna og hins vegar aukna hagræðingu og auknar tekjur. Alls eru þau 340 talsins en mikill meirihluti þeirra er til þess fallinn að auka útgjöld og minnka tekjur. Aðeins 56 þeirra hafa jákvæð áhrif á afkomu, þ.e. draga úr útgjöldum eða auka tekjur. Fjöldi útgjalda- og tekjuloforða er mismunandi eftir flokkum sem gefur einnig vísbendingu um að umfang einstaka loforða sé afar misjafnt.