Það ríkir ekki neyðarástand í húsnæðismálum. Samkvæmt alþjóðlegum samanburði er einungis ein evrópsk höfuðborg, Haag, þar sem kaupmáttur er hærri í samanburði við verð á íbúðarhúsnæði. Þetta segir Pawel Bartoszek, formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar.

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, sagði við Morgunblaðið á mánudag, að það væri óskiljanlegt að Reykjavíkurborg viki ekki frá þéttingarstefnu til að mæta neyðarástandi á húsnæðismarkaði.

Pawel segir að tilgáta Ragnars Þórs sé að það væri byggt mun meiri í Reykjavík ef ekki væri fyrir þéttingu byggðar. „Staðreyndin er hins vegar sú að seinustu tvo til þrjú ár hafa verið algjör metár í uppbyggingu nýrra íbúða. Höfum verið að fá yfir þúsund nýjar íbúðir inn á markað bæði 2019 og 2020 og það mark mun einnig nást í ár. Sjaldan í sögu borgarinnar höfum við horft upp á annað eins uppbyggingarskeið,“ segir hann.

Reykjavíkurborg sé að skipuleggja nýtt hverfi frá grunni, Ártúnshöfðann. „Þau hverfi sem Sjálfstæðisflokkurinn nefnir í sínum tillögum munu geta komið til álita á næstu árum en þeim þarf auðvitað líka að fylgja innviðauppbygging, ekki bara lagnir og götur heldur skólar, sundlaugar bókasöfn. Það kostar líka sitt og ekki raunhæft að ætla sér að gera það á fjölmörgum stöðum í einu,“ bætir Pawel við.