Íslenska ríkið hefur viðurkennt brot gegn Mannréttindasáttmála Evrópu í málum fimm íslendinga sem rekin hafa verið fyrir Mannréttindadómstól Evrópu. Um er að ræða mál þeirra Sigurjóns Árnasonar, fyrr­ver­andi banka­stjóra Lands­bank­ans, tveggja lykilstarfsmanna bankans; Steinþórs Guðmundssonar og Ívars Guðjóns­sonar og tveggja einstaklinga sem fengu dóm í Milestone málinu; Karls Emils Wernerssonar fyrrum stjórnarmanns í Milestone og Margrétar Guðjónsdóttur endurskoðanda.

Rúmar níu milljónir í miskabætur

Í dómsáttum sem ríkið hefur gert við kærendurna eru brot ríkisins gegn 6. gr. mannréttindasáttmálans um réttlátra málsmeðferð viðurkennd og fallist á að greiða hverjum og einum kæranda 12 þúsund evrur í bætur. Það samsvarar rúmlega 1,8 milljón á mann, samtals 9,2 milljónir króna.

Kærendurnir hafa fallist á að gera ekki frekari kröfur á hendur ríkinu vegna málana.

Deild þriggja dómara við Mannréttindadómstól Evrópu kvað upp dóma í morgun í samræmi við dómsættir í málunum.

Endurupptaka mála enn möguleg

Í dómsáttunum er hins vegar vikið sérstaklega að möguleika kærendanna að óska eftir endurupptöku málana fyrir innlendum dómstólum.

Endurupptaka máls Sigurjóns hefur nú þegar verið samþykkt og mál hans flutt á ný fyrir Hæstarétti. Beðið er niðurstöðu réttarins í málinu.

Byggt á máli Elínar

Í kærum Landsbankamanna var meðal annars byggt á því að þeir dómarar við Hæstarétt, sem áttu hlutabréf í Landsbankanum og urðu fyrir tjóni við fall bankans, hefðu átt að víkja sæti í málinu vegna vanhæfis.

MDE hefur þegar kveðið upp áfellisdóm yfir ríkinu í máli Sigríðar Elínar Sigfúsdóttur, fyrrverandi forstöðumanns fyrirtækjasviðs bankans. Niðurstaða dómsins var að hlutafjáreign hæstaréttardómarans Viðars Más Matthíassonar í Landsbankanum hafi gefið tilefni til að meta hæfi hans sérstaklega og hlutleysi dómsins því ekki verið hafið yfir allan vafa. Því hefði Elín ekki notið þess réttar sem kveðið er á um í 6. gr. Mannréttindasáttmálans um réttláta málsmeðferð fyrir óvilhöllum og óháðum dómstól.

Í dómsáttinni við ríkið er vísað sérstaklega til niðurstöðu MDE í máli Elínar en mál þremenningana eru einnig sambærileg því máli að því leiti að þremenningarnir voru sýknaðir í heild eða hluta í héraði en allir sakfelldir fyrir markaðsmisnotkun í Hæstarétti.

Vísað til máls Stymis Þórs

Ríkið hefur einnig gert dómsátt við Karl Wernersson, fyrrverandi hluthafa og stjórnarmanns í Milestone, og Margréti Guðjónsdóttur endurskoðanda.

Karl var ákærður fyrir umboðssvik og fleiri brot árið 2013. Hann var sýknaður í héraði en Hæstiréttur sneri dómnum við og sakfelldi hann fyrir alla ákæruliði og dæmdi hann í fangelsi í þrjú og hálft ár.

Tveir endurskoðendur voru einnig sýknaðir í héraði en sakfelldir að hluta í Hæstarétti fyrir stórfelld brot á lögum um ársreikninga.

Mál Karls og Margrétar til MDE lúta meðal annars að því að Hæstiréttur hafi snúið við sýknudómi í héraði án þess að hlýða á vitnisburði sakborninga eða annarra vitna. Í stað þess hafi Hæstiréttur endurmetið trúverðugleika og sönnunargildi framburðar, sem veittur var í héraði, en dómarar í Hæstarétti sjálfir ekki hlustað á, í andstöðu við rétt þeirra á réttlátri málsmeðferð, samanber 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu.

Í dómsátt sem gerð var við Karl og Margréti er vísað til dóms réttarins í máli Styrmis Þór Bragasonar þar sem framangreind framkvæmd var talin í andstöðu við 6. gr. Mannréttindasáttmálans.