Heiða Björg Hilmisdóttir, nýkjörinn formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga segist ekki trúa öðru en að ríkið taki við sér og fjármagni að fullu þjónustu við fatlað fólk fyrir lok árs.

Sveitarfélögin sendu frá sér harðorða yfirlýsingu í síðustu viku um bága fjárhagsstöðu sveitarfélaga um allt land og segja að hana megi rekja til vanfjármögnunar ríkisins. Þar muni langmest um málaflokk fatlaðs fólks.

Heiða Björg segir eðlilegt að fólk upplifi að lítið gerist í umræðunni um þessa mikilvægu þjónustu.

„Nú hef ég verið á þessum vettvangi í átta ár og mér finnst óþarflega margt enn á umræðustigi eftir allan þennan tíma. Og það er ekki gefandi eða uppbyggilegt. En mér finnst þetta standa upp á okkur stjórnmálamennina. Hvort sem við störfum á vettvangi sveitarfélaga eða á Alþingi. Við eigum að leysa þessa hluti."

„Það vita allir að fjármagnið frá ríkinu dugar ekki"

Heiða neitar að trúa því ekki verði unnt að leysa þennan vanda sem hefur verið að magnast upp varðandi fjármögnun málaflokks fatlaðs fólks.

„Það eru allir sammála um stöðuna. Það vita allir að fjármagnið frá ríkinu dugar ekki til að veita þessa lögbundnu þjónustu. Þess vegna trúi ég ekki öðru en að það verði hægt að leysa þetta fyrir lok árs“

Í framhaldinu telur Heiða ekki síður mikilvægt að ræða hvernig við ætlum að haga málum þegar ríkið ákveður að setja ný lög, auki þjónustu en sneiði svo hjá því að láta fjármagn fylgja með.

„Við verðum að ræða það og koma málum í betra horf. Annars erum við bara að tala um innantóm loforð stjórnmálamanna um bætta þjónustu sem engin leið er að standa við. Það bitnar á endanum á þeim sem eiga rétt á þjónustunni og hafa bundið vonir við fyrirheit stjórnmálamanna,“ segir Heiða.

Nánar verður rætt við Heiðu í Markaðnum á Hringbraut í kvöld klukkan 19 og svo aftur klukkan 21.