Íslenska ríkið var í dag sýknað af kröfum heildsölunnar Ásbjörn Ólafsson um endurgreiðslu útboðsgjalds vegna innflutnings á landbúnaðarvörum. Hæstiréttur snýr þar með við einróma dómi Landsréttar frá því í mars, en þar var það fyrirkomulag við úthlutun tollkvóta fyrir búvörur, sem nú er í gildi, dæmt andstætt stjórnarskránni. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Félagi atvinnurekenda.

Áður höfðu dómstólar dæmt fyrirkomulag útboðsgjaldsins ólögmætt í tvígang en Alþingi breytti þá lögum jafnóðum til að finna nýja útfærslu á álagningu gjaldsins. Hefði fyrirtækið haft betur, hefði ríkið þurft að endurgreiða útboðsgjöld að upphæð yfir fjórir milljarðar króna sem innheimt hafa verið af innflutningsfyrirtækjum frá því árið 2018, að því er segir í tilkynningunni.

„Tollkvótar eru heimildir til að flytja inn tiltekið magn af vörum á lágum eða engum tollum og samið er um þá í alþjóðasamningum. Íslenska ríkið hefur um árabil úthlutað tollkvótunum með því að bjóða þá upp og hefur útboðsgjaldið, sem innheimt er af innflutningsfyrirtækjum, oft slagað upp í almennan toll af vörunni. Með álagningu þess er því ávinningur tollfrelsisins hafður að hluta til af innflutningsfyrirtækjum og neytendum, sem greiða hærra verð fyrir vörurnar en ella,“ segir Félag atvinnurekenda.

Í dómi Landsréttar var fallist á þá röksemdafærslu innflutningsfyrirtækisins að á þeim tíma sem málshöfðunin tók til, hefði verið kveðið á um það í búvörulögum að tollkvótar skyldu boðnir út og ráðherra setti nánari reglur um úthlutunina í reglugerð. Ráðherra hafi á þessum tíma haft heimildir til að setja ákvæði í reglugerð um hvernig ætti að velja á milli fyrirtækja sem gerðu tilboð í tollkvóta og við hvaða boð, eða aðra fjárhæð skyldi miða útboðsgjaldið. „Samkvæmt framangreindu, og í ljósi hins fortakslausa banns 40. gr. og 1. mgr. 77. gr. stjórnarskrárinnar við því að stjórnvöld ákveði hvort leggja skuli á skatt, breyta honum eða afnema, verður skattlagningarheimild 3. mgr. 65. gr. búvörulaga, eins og hún hljóðaði á þeim tíma sem atvik málsins gerðust, ekki talin samrýmast ákvæðum 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar. Álagning gjalda þeirra sem málið varðar studdist samkvæmt þessu ekki við lögmæta skattlagningarheimild og var því ógild,“ sagði í dómi Landsréttar.

Hæstiréttur að annarri niðurstöðu

Hæstiréttur kemst nú að annarri niðurstöðu. Rétturinn segir að með þeirri skattlagningu, sem falin sé í gjaldtöku fyrir tollkvóta, sé stefnt að tilteknum lögmætum markmiðum samkvæmt búvörulögum og verði að „játa löggjafanum talsvert svigrúm um val á leiðum að þeim markmiðum“ að því tilskildu að gætt sé grundvallarsjónarmiða stjórnarskrárinnar. Hæstiréttur telur sömuleiðis „ljóst að ráðherra hefur ekki lengur heimild til að taka einhliða ákvörðun um hvort greiða skal gjald fyrir tollkvóta eða láta fara fram útboð á tollkvótum, svo sem dómstólar hafa talið andstætt 1. mgr. 77. gr.,“ eins og segir í dómnum.

Þá telur Hæstiréttur tollkvóta „takmörkuð gæði sem úthluta þarf til þeirra sem sækjast eftir þeim“ og löggjafinn þurfi því „að setja fyrirmæli um fyrirkomulag við að deila þeim út og búa jafnframt svo um hnútana að byggt sé á almennum efnsilegum mælikvarða og gætt sé ákveðins jafnræðis.“

Íþyngjandi fyrir neytendur

Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda segir að dómurinn sé að sjálfsögðu vonbrigði. „Ríkið hefur frá því á árinu 2018 innheimt yfir fjóra milljarða króna í útboðsgjald af innflytjendum. Þessi skattlagning hefur verið íþyngjandi fyrir innflutningsverslunina og ekki síður fyrir neytendur. Hún þýðir einfaldlega að innfluttar búvörur eru dýrari en þær þyrftu að vera. Önnur ríki Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar hafa flest fundið leiðir til að úthluta tollfrjálsum innflutningskvótum án uppboðs, enda er tilgangur þess að semja um að fella niður skatta af vörum í milliríkjaviðskiptum ekki sá að ríkin sem eiga aðild að fríverslunarsamningum finni síðan leiðir til að leggja samt á þær skatta. Útboðsfyrirkomulagið hefur bitnað á fyrirtækjum og neytendum og skekkt samkeppni á búvörumarkaði og mun augljóslega gera það áfram nema Alþingi breyti lögum enn á ný,“ segir Ólafur.