Ríkisfjármálin, vinnumarkaðurinn og peningastefnan ganga í takt í fyrsta sinn í langan tíma en þannig er unnt að stuðla að meiri stöðugleika í hagkerfinu.

Þetta kom fram í máli Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra og Gylfa Zoega, nefndarmanns í peningastefnunefnd, á opnum fundi í efnahags- og viðskiptanefnd í gær.

Á fundinum voru Ásgeir og Gylfi spurðir hvort þeir væru sammála því að ríkisfjármálin og vinnumarkaðurinn væru meira í samræmi við peningastefnu Seðlabankans en áður. „Það hefur kannski vantað skilning á því að ríkið beitir sér gegn niðursveiflum en þetta stendur mjög til bóta og er ein aðalástæðan fyrir því að við höfum séð meiri stöðugleika,“ svaraði Ásgeir og Gylfi tók undir.

„Síðustu mánuðir eru það tímabil sem maður getur verið hvað ánægðastur með. Það varð míní-kreppa og þá voru viðbrögðin þannig að vinnumarkaðurinn var róaður sem hafði þær afleiðingar að verðbólguvæntingar fóru niður. Síðan gat fjármálastefna ríkisins brugðist við meiri slaka sem ýtti undir eftirspurn og við höfum lækkað vexti.

Þannig að við erum að vinna saman í fyrsta sinn í langan tíma,“ sagði Gylfi. „Það er mjög jákvætt og vonandi verður það þannig í framtíðinni að vinnumarkaðurinn, ríkisvaldið og Seðlabankinn gangi í takt.“

Þá kom fram í máli seðlabankastjóra að litið fram á veginn gæti vaxtalækkunarferlið haldið áfram ef verðbólguvæntingar lækka, áfram hægir á verðbólgu og ef hagvaxtarhorfur versna. Óttast hann of mikla bjartsýni miðað við gang mála erlendis. „Ég sjálfur óttast að óvissan sé niður á við, að þetta sé of gott til að vera satt,“ sagði Ásgeir.