Viðskiptaráð varar í umsögn sinni um fjárlagafrumvarp næsta árs að hætta sé á að ríkisfjármálin kyndi undir verðbólgu. Slaki ríkisfjármála sé enn áþekkur því sem var í hámarki faraldursins og mikilli niðursveiflu 2020, þrátt fyrir að hagkerfið fari á næsta ári langleiðina með að jafna sig og við þær aðstæður sé hætta á að ríkisfjármálin kyndi enn frekar undir verðbólgu.

Viðskiptaráð telur nær allar umsagnir um fjármálafrumvarpið kalla eftir útgjaldaauka.

Ráðið segir mikinn þrýsting á að auka útgjöld en að fáir, ef einhverjir, leggi fram tillögur til að fjármagna útgjöldin. Stjórnvöld þurfi því að hafa skýra sýn á forgangsröðun í ríkisrekstrinum.

Að mati Viðskiptaráðs þarf ríkið að beita kröftum sínum með enn markvissari hætti. Sé það gert verði hægt að stuðla betur að lægri sköttum á fólk og fyrirtæki. Ráðið telur að stjórnvöld ættu að senda jákvæð skilaboð inn í komandi kjaraviðræður með því að halda tryggingagjaldinu óbreyttu. Enn fremur vill Viðskiptaráð draga úr atvinnurekstri hins opinbera, sem það telur of stórtækan, og virkja krafta einkaframtaksins þar sem samkeppni nýtur, eða getur notið, við.

Á árunum 2016 til 2020 fækkaði stöðugildum hjá einkageiranum nokkuð en fjölgaði mikið hjá hinu opinbera.

Ráðið telur ríkulegar launahækkanir hins opinbera geta kynt undir höfrungahlaup og til lengdar raskað verð- og efnahagsstöðugleika.

Breytt flokkun ríkisaðila er að mati ráðsins skiljanleg en einnig veki hún upp spurningar. Stjórnvöld þurfi að taka tillit til þess hvernig ríkissjóður muni að lokum taka á sig hátt í 200 milljarða króna tap Íbúðalánasjóðs sem skuldi 885 milljarða króna sem sé 74 prósent af skuldum A1 hlutans. Að auki sé eigið fé sjóðsins neikvætt um 183 milljarða króna. Að óbreyttu blasi því við að þessar miklu skuldir lend að töluverðu leyti á ríkissjóði með beinum hætti. Fræðilega séð verði öll skuldabréf útgefin af sjóðnum að fullu greidd 2044 en þar sem eignir séu ekki nægar á móti muni það kalla á mikla og beina lántöku ríkissjóðs sem ætti að teljast með A1 hluta ríkissjóðs samkvæmt skuldareglu en séu settar í A2. Stjórnvöld þurfi nauðsynlega að grípa nú þegar til ráðstafana til að taka tillit til þessarar fyrirsjáanlegu stöðu.