Stjórn Lindarhvols, sem var falið að halda utan um tugmilljarða eignir sem voru afhentar ríkinu vegna stöðugleikaframlaga slitabúa gömlu bankanna, er sögð í drögum að skýrslu Ríkisendurskoðunar um starfsemi eignarhaldsfélagsins ekki hafa í öllum tilfellum náð því markmiði að hámarka söluandvirði eigna sem voru í umsýslu Lindarhvols á árunum 2016 til 2018.

Það kunni að hafa valdið því að ríkið hafi af þeim sökum fengið samtals allt að um milljarði króna minna í sinn hlut en ella, samkvæmt heimildum Markaðarins, en þar munar mest um á sölu á nærri átján prósenta hlut í eignarhaldsfélaginu Klakka, sem átti meðal annars allt hlutafé eignaleigufyrirtækisins Lykils, haustið 2016 fyrir 505 milljónir króna.

Stjórn Lindarhvols gerir margvíslegar athugasemdir við skýrslu Ríkisendurskoðunar, sem telur um 70 blaðsíður en er ekki endanleg útgáfa, í afar ítarlegri umsögn sem hún skilaði til stofnunarinnar síðastliðinn föstudag, samkvæmt heimildum Markaðarins. Þannig gagnrýnir stjórnin harðlega í umsögn sinni þá aðferðafræði sem Ríkisendurskoðun beitir þegar hún leggur mat á hvort Lindarhvoll hafi náð að hámarka endurheimtur við sölu á eignum félagsins.

Þórhallur Arason, sem var stjórnarformaður Lindarhvols, sagðist í samtali við Markaðinn ekki vilja tjá sig um málið en félaginu var slitið í febrúar 2018 eftir að bróðurpartur þeirra eigna sem eftir voru í umsjá þess voru færðir inn í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins.

Í skýrslunni um starfsemi Lindarhvol er fyrirkomulag við ráðningu á lögmannsstofunni Íslögum, sem er í eigu Steinars Þórs Guðgeirssonar hæstaréttarlögmanns, einnig gagnrýnt, auk greiðslna til stofunnar, en Steinar var fenginn til að hafa umsjón með rekstri Lindarhvols. Fram hefur komið að félagið greiddi Íslögum samtals um 80 milljónir króna, fyrir utan virðisaukaskatt, fyrir vinnu sína á þeim tæplega tveimur árum sem Lindarhvoll var starfandi.

Samkvæmt því sem fram kemur í umsögn stjórnar Lindarhvols til Ríkisendurskoðunar, að því er heimildir Markaðarins herma, er þessum athugasemdum stofnunarinnar um að ekki hafi eðlilega verið staðið að ráðningu Steinars, sem var formaður skilanefndar Kaupþings, vísað alfarið á bug. Hann hafi verið vel til þess fallin að vinna fyrir eignarhaldsfélagið, meðal annars vegna aðkomu sinnar sem ráðgjafi stjórnvalda að gerð stöðugleikaskilyrða gagnvart slitabúunum, og þá hafi tímagjald vegna starfa hans fyrir Lindarhvol ekki geta talist hátt, að mati stjórnarinnar.

Skúli Eggert Þórðarson ríkisendurskoðandi.

Skúli Eggert Þórðarson ríkisendurskoðandi sagði í svari til Markaðarins fyrr í þessum mánuði að hann ætti von á því að skýrslan, sem Ríkisendurskoðun lauk við seint á síðasta ári, yrði líklega komin til Alþingis um komandi mánaðarmót eða rétt eftir þau. Hvort það tækist færi hins vegar meðal annars eftir umsögn stjórnar Lindarhvols og umfangi hennar hvort rannsaka þyrfti eitthvað til viðbótar.

Sigurður Þórðarson, settur ríkisendurskoðandi, skilaði greinargerð um starfsemi Lindarhvols um mitt ár 2018. Ríkisendurskoðun tók í kjölfarið við verkefninu og hefur síðan þá unnið að gerð heildstæðrar úttektar á störfum félagsins.

Lindarhvol lauk þeim verkefnum sem því voru falin snemma árs 2018, í kjölfar sölu á öllu hlutafé ríkisins í Lyfju, og var félaginu í kjölfarið slitið. Kom þá fram að andvirði þeirra stöðugleikaeigna sem innleystar höfðu verið næmi alls um 207,5 milljörðum króna og væru þá frátalin framlög vegna viðskiptabanka og aðrar óinnleystar eignir.

Auk eignarhluta í Lyfju og Klakka átti Lindarhvol hluti í félögum á borð við Sjóvá, Reitum, Eimskip, Símanum auk ýmissa annarra óskráðra félaga.

Viðskiptafélagarnir Sigurður Valtýsson, fyrrverandi forstjóri Exista, og bræðurnir Ágúst og Lýður Guðmundsson, oftast kenndir við breska matvælaframleiðandann Bakkavör, gagnrýndu á sínum tíma harðlega vinnubrögð Lindarhvols við sölu á hlut ríkisins í Klakka og kvörtuðu meðal annars til Fjármálaeftirlitsins vegna málsins. Félag á þeirra átti tilboð í hlut ríkisins, sem var gert í nafni Kviku banka, en hluturinn var seldur til félags í eigu vogunarsjóðsins Davidson Kempner.