Skilyrði til endurgreiðslu vegna kvikmyndagerðar verða þrengd og íslenska ríkið hættir að endurgreiða vegna spjallþátta, skemmtiþátta og raunveruleikaþátta, verði lagabreytingar Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur að veruleika. Þannig verður aðeins endurgreitt fyrir leiknar kvikmyndir, leikið sjónvarpsefni og heimildarmyndir.
Þetta er á meðal þess sem fram kemur í frumvarpsdrögum Þórdísar Kolbrúnar sem birt voru á Samráðsgátt stjórnvalda í dag. Þar er lagt til að þau skilyrði sem þarf að uppfylla til þess að fá endurgreiðslu verði þrengd með það fyrir augum að laða erlenda aðila til framleiðslu kvikmynda og sjónvarpsefnis hér á landi – og þannig verði lögð aukin áhersla á kvikmyndaiðnaðinn á Íslandi, líkt og það er orðað í frumvarpinu.
Endurgreiðslur vegna skemmtiþátta hafi aukist mikið
Ef af þessum breytingum verður falla út spjallþættir, raunveruleikaþættir og skemmtiþættir en fram kemur í frumvarpinu að endurgreiðslur til slíkra þátta hafi aukist töluvert.
Jafnframt er lagt til að þak verði sett á ársgreiðslur til einstakra verkefna og að krafa verði um að öll verkefni lúti endurskoðun á kostnaði og að skilin milli endurgreiðslukerfisins og úthlutunar úr Kvikmyndasjóði verði skýrari.
„Með þessum tillögum er bæði lögð áhersla á bætta nýtingu þeirra fjármuna sem fara til endurgreiðslna og á lækkun heildarupphæðar endurgreiðslna. Tillögurnar miða að því að horfa í auknum mæli til upphaflegs markmiðs og tilgangs laganna og gera viðeigandi breytingar á kerfinu með það fyrir augum að gera greinina sjálfbærari til lengri tíma,“ segir í frumvarpinu.
300 milljón króna niðurskurður
„Lagabreytingin mun gera það verkum að eingöngu verði endurgreitt fyrir leiknar kvikmyndir, leikið sjónvarpsefni og heimildarmyndir. Lagabreytingin á ekki að hafa áhrif á framleiðslu þess efnis heldur á endurgreiðslu til annars efnis sem áætlað er að haldi áfram framleiðslu,“ segir enn fremur.
Nái áformin óbreytt fram að ganga munu útgjöld vegna kvikmyndaendurgreiðslna lækka um 300 milljónir króna. „Nettóáhrif á afkomu ríkissjóðs eru því jákvæð og munu leiða til 300 m.kr. minnkunar á útgjaldaramma málefnasviðs,“ segir í frumvarpsdrögunum.