Ís­­lenska ríkið gerðist brot­­legt gegn Júlíusi Þór Sigur­þórs­syni, fyrr­verandi fram­kvæmda­stjóra vöru­stýringa­sviðs Húsa­smiðjunnar, þegar hann var sak­­felldur í Hæsta­rétti án þess að hafa hlotið rétt­láta máls­­með­­ferð.

Mann­réttinda­dóm­stóll Evrópu (MDE) birti dóm sinn þess efnis klukkan átta í morgun. Júlíus var árið 2016 dæmdur í níu mánaða fangelsi í Hæsta­rétti fyrir hlut­deild í refsi­verðu sam­ráði Húsa­smiðjunnar, BYKO og bygginga­verslunarinnar Úlfsins.

Í kjöl­farið kærði hann niður­stöðuna til MDE á þeim for­sendum að hann hafi ekki notið rétt­látrar máls­með­ferðar, þeirrar er kveðið er á um í Mann­réttinda­sátt­mála Evrópu. Vísaði hann þar til þess að við aðal­með­ferð málsins í Hæsta­rétti hafi verið litið til vitnis­burðar hans fyrir Héraðs­dómi Reyja­víkur. Ekki væri heimild í lögum fyrir slíku.

MDE féllst ekki á að ís­lenska ríkið skyldi greiða Júlíusi neinar bætur eða kostnað vegna mála­ferlanna á dóm­stigum Ís­lands. Hafði hann farið fram á 10 milljónir í bætur og aðrar 10 vegna mála­ferlanna hér heima. Meðal þess sem rakið er í dómnum er að engar kvittanir hafi verið lagðar fram vegna máls­kostnaðarins og kröfu hans því hafnað.

Mbl.is hefur það eftir Braga Björns­syni, lög­manni Júlíusar, að ríkið hafi ekki verið búið að rukka hann fyrir máls­kostnaðinn fyrir ís­lenskum dóm­stólum og því engar kvittanir því til sönnunar. Upp­hæðin hafi, þrátt fyrir það, alla tíð legið fyrir sam­kvæmt dómi Hæsta­réttar frá 2016.

Dómur MDE í heild.