Samkvæmt skýrslu kjaratölfræðinefndar hefur hið opinbera leitt launaþróun á Íslandi síðastliðin þrjú ár. Þannig voru heildarlaun árið 2021 að meðaltali hæst hjá ríkinu. Þá hefur grunntímakaup hækkað mest hjá Reykjavíkurborg frá árinu 2019, eða um 29,8 prósent.

Ari Fenger, formaður Viðskiptaráðs, segir ýmsa hafa varað við þessari þróun um nokkurt skeið, meðal annars Viðskiptaráð.

„Það sem við höfum einna helst gagnrýnt er að á meðan launavísitala á almennum vinnumarkaði hefur hækkað um 16 prósent þá hefur launavísitala opinberra starfsmanna hækkað um tæp 25 prósent. Það er þetta sem við höfum áhyggjur af því það er ekki skynsamlegt að starfsmenn hins opinbera leiði launaþróun með þessum hætti. Það er alltaf heppilegra að einkageirinn geri það.“

Að hans mati verði almenn launaþróun, þar með talið hjá hinu opinbera, að vera í samræmi við framleiðnivöxt og verðbólgumarkmið Seðlabankans. Launahækkanir síðustu þriggja ára hjá hinu opinbera hafi verið órafjarri því. Síðustu ár hafi vissulega verið óvenjuleg en það gefi samt augaleið að það þurfi að taka á þessum auknu útgjöldum.

„Þetta er ekki eina orsök verðbólgunnar en við getum samt ekki haldið áfram á þessari braut. Það mun ekki skila okkur neinu og gerir stöðuna enn snúnari nú þegar við siglum inn í kjarasamninga í 10 prósenta verðbólgu.“

Við höfum einfaldlega verið að benda á mikilvægi þess að gæta aðhalds í ríkisfjármálum

Ari segist meðvitaður um þær ástæður sem liggja að baki útþenslu ríkisins á undanförnum árum. Að baki liggi eðlilegar skýringar.

„Við höfum náð góðum árangri síðustu ár þrátt fyri efnahagsleg áföll. Það má ekki gleyma því. Kaupmáttur launa hefur aukist um 8,6 prósent frá árinu 2019 og kaupmáttur lægstu launataxta hefur hækkað um 9,6 prósent sem ég held að megi segja að sé algjört einsdæmi. Það má alveg hrósa því sem vel er gert. En við höfum einfaldlega verið að benda á mikilvægi þess að gæta aðhalds í ríkisfjármálum. Það hefur sjaldan verið jafn mikilvægt og nú.“

Ein birtingarmynd launaþróunar síðustu ára, að mati Ara, er að fyrirtæki eigi sífellt erfiðara með að keppa við ríkið um starfsfólk.

„Við gerðum könnun hjá okkar aðildarfélögum í vor og þar kom fram að tæplega helmingur fyrirtækja er að missa starfsmenn til hins opinbera vegna launa. Þannig að það er klárlega ákveðinn flótti úr einkageiranum yfir til hins opinbera vegna þessarar þróunar. Og það er eiginlega alveg ótrúleg staða og við þurfum að snúa þessu við.“

Hann leggur jafnframt áherslu á að ef grípa eigi til beinna aðgerða ríkisins í komandi kjaraviðræðum þá verði þær hófstilltar.

„Þá er mikilvægast að þær aðgerðir verði skýrar og beinist fyrst og fremst að þeim hópum launþega sem standa höllum fæti,“ segir Ari Fenger.