Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, upplýsti á ársfundi Landsvirkjunar í dag að ríkisstjórnin hefði samþykkt fyrir nokkrum vikum að hefja viðræður um kaup ríkisins á eignarhlutum í Landsneti. Þetta kemur fram í frétt mbl.is.
Starfshópur verður skipaður á næstunni til þess að leiða viðræður um kaup ríkisins á fyrirtækinu.
Landsnet er í meirihlutaeigu Landsvirkjunar, sem á 65 prósenta hlut, og rekur allar meginflutningslínur rafmagns hér á landi. RARIK á með 23 prósenta hlut, Orkuveita Reykjavíkur á sjö prósent og Orkubú Vestfjarða sex prósent.
Hún sagði að Ísland hafi fengið undanþágu frá þeirri kröfu, sem kveðið er á um í þriðja orkupakkanum, um að fullur aðskilnaður skuli vera á milli eigenda flutningsfyrirtækis frá öðrum fyrirtækjum á orkumarkaði, að því er fram kemur í frétt Vísis.
„Engu að síður liggur fyrir að öllum helstu hagsmunaaðilum hér á landi finnst slíkur eigenda-aðskilnaður skynsamlegur. Það er að segja: Að til lengri tíma litið sé óheppilegt að flutningsfyrirtækið Landsnet sé í eigu raforkuframleiðenda og dreifiveitna. Frá sjónarhóli neytenda er auðvitað augljóst að sjálfstæði flutningsfyrirtækisins stuðlar að jafnræði annarra aðila á markaði,“ sagði Þórdís Kolbrún.