Héraðsdómur Reykjaness hefur rift þremur greiðslum upp á ríflega 11,7 milljónir króna sem félagið 12.12.2017, áður Kostur, innti af hendi til félags á vegum Jóns Geralds Sullenberger, stofnanda matvöruverslunarinnar, um einum mánuði áður en verslunin var tekin til gjaldþrotaskipta.

Er umræddu félagi, hinu bandaríska Nordica Inc., og Jóni Gerald gert að endurgreiða þrotabúi 12.12.2017 fjárhæðina með vöxtum og dráttarvöxtum.

Dómurinn taldi ljóst að 12.12.2017 hefði verið ógjaldfært þegar greiðslurnar voru inntar af hendi til Nordica Inc. og Jóni Geraldi hefði mátt var það ljóst.

Skiptastjóri þrotabúsins, Arnar Þór Stefánsson, einn eigenda LEX lögmannsstofu, stefndi bandaríska félaginu og Jóni Gerald í mars í fyrra og krafðist riftunar og endurgreiðslu á greiðslunum.

Eins og kunnugt er var verslun Kosts, sem Jón Gerald stofnaði í Kópavogi árið 2009, lokað snemma í desember árið 2017 og var nafni félagsins í kjölfarið breytt í 12.12.2017. Tollstjóri lagði fram gjaldþrotaskiptabeiðni á hendur félaginu 20. desember 2017 og var það tekið til gjaldþrotaskipta 15. febrúar 2018.

Í millitíðinni, nánar tiltekið dagana 10. janúar til 12. janúar, voru þrjár greiðslur upp á samanlagt 11,7 milljónir króna millifærðar af reikningi 12.12.2017 til Nordica Inc., sem var stærsti birgir Kosts.

Í dóminum kemur fram að þegar litið sé til stöðu félagsins og ógjaldfærni þess, meðal annars til þess að greiða forgangskröfur, geti umræddar greiðslur ekki hafa talist venjulegar.

Bent er á að skammtímaskuldir Kosts hafi numið 221 milljón króna í lok árs 2016 en skammtímakröfur á sama tíma 163 milljónum króna. Í ársreikningi verslunarinnar fyrir árið komi fram að þessar aðstæður gefi til kynna töluverða óvissu um rekstrarhæfi félagsins næstu tólf mánuði sem geti hugsanlega haft þær afleiðingar að félagið geti ekki selt eignir sínar og greitt skuldir við eðlileg rekstrarskilyrði.

Þá kom í ljós á árinu 2017, að því er segir í dómnum, að félagið hafi ekki getað greitt tollstjóra aðflutningsgjöld. Loks hafi verið tilkynnt um lokun verslunarinnar í desember 2017. Lýstar kröfur í búið nemi auk þess ríflega 253 milljónum króna og forgangskröfur 21 milljón króna.

„Félagið átti óverulegar eignir þegar umræddar greiðslur voru inntar af hendi og er ljóst að þær skertu greiðslugetu félagsins verulega,“ segir í niðurstöðu héraðsdóms.

Var því fallist á bæði riftunar- og endurgreiðslukröfu þrotabúsins.

Nordica og Jóni Gerald var auk þess gert að greiða þrotabúinu 800 þúsund krónur í málskostnað.