Hækkandi fasteignaverð er megindrifkraftur verðbólgunnar í apríl, en reiknuð húsaleiga hækkaði um 2,5 prósent í mánuðinum sem hafði áhrif til 0,4 prósent hækkunar á vísitölu neysluverðs. Daníel Svavarsson, aðalhagfræðingur Landsbankans, telur að Seðlabankinn muni beita öðrum tólum en vaxtahækkunum til að kæla fasteignamarkaðinn - í það minnsta fyrst um sinn.

„Ég tel ólíklegt að þessi verðbólgumæling ein og sér auki líkur á vaxtahækkun, en peningastefnunefnd hlýtur hins vegar að staldra við hana. Ég tel líklegra að öðrum tólum verði beitt í fyrsta kasti til að hægja á fasteignamarkaðnum. Þar væri hægt að breyta reglum um greiðslumat, veðhlutföll eða hámarkslán,“ segir Daníel.

Greiningaraðilar á markaði sem gefa út verðbólguspár höfðu spáð hækkun á bilinu 0,05 prósent til 0,27 prósent. Því er ljóst að 0,71 prósent hækkun aprílmánaðar var langt umfram væntingar þeirra aðila á markaði sem gefa út verðbólguspár.

„Okkur hefur gengið illa að átta okkur á því hvernig Hagstofan reiknar þennan lið. Það er því athyglisvert hversu mikil þessi hækkun á húsnæðiskostnaði er núna. Reiknuð húsaleiga byggir á þriggja mánaða hlaupandi meðaltali og hækkun íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu var hófleg í janúar (0,1 prósent) og febrúar (0,6 prósent) en hækkaði vissulega töluvert í mars eða um 1,6 prósent milli mánaða, en samkvæmt mælingu Hagstofunnar nú hækkar íbúðaverðsliðurinn í reiknaðri húsaleigu um heil 2,7 prósent milli mánaða “ bætir Daníel við.

Áfram með smjörið

Meðal annarra liða sem studdu við verðbólgumælingu voru verðhækkanir á mjólkuvörum, en þær byggja á auglýsingu verðlagsnefndar búvara um heildsöluverð búvara, sem birt var í upphafi aprílmánaðar.

Ber þar hæst rífleg verðhækkun á smjöri sem hækkaði um 8,5 prósent frá síðustu auglýsingu sem birt var í júní á síðasta ári. Heildsöluverð 1.flokks mjólkurbússmjörs er nú 1039 krónur á kílóið án virðisaukaskatts, en hafði staðið í 958 krónum frá því í júní á síðasta ári.

Hækkanir á heildsöluverði rjóma, mjólk og skyri voru hóflegri, eða um 3,5 prósent frá síðustu auglýsingu verðlagsnefndar.