Hlutafjárútboði Síldarvinnslunnar lauk síðdegis á fimmtudag. Boðinn var til sölu ríflega fjórðungur útgefins hlutafjár eða 448 milljónir hluta. Reyndist eftirspurnin ríflega tvöföld hvort tveggja frá almenningi og fagfjárfestum.

Fram kemur á vef fyrirtækisins að seljendur hinna fölu hluta hafi samþykkt áskriftir fyrir 499 milljónir eða tæplega þriðjung hluta í félaginu. Þannig var tilboðum tekið í stærri hluta félagsins en ráðgert var.

Samtals bárust áskriftir fyrir um 60 milljarða króna. Andvirði samþykktra áskrifta nam 29,7 milljörðum.

Í kjölfar útboðsins verða hluthafar í Síldarvinnslunni tæplega 7.000 talsins.

Á vef Síldarvinnslunnar segir Gunnþór Ingason, forstjóri félagsins, að ánægjulegt sé að sjá áhuga almennings og fagfjárfesta á sjávarútvegi sem raun ber vitni.

„Ég vil bjóða nýja hluthafa velkomna í Síldarvinnsluna og þakka það mikla traust sem þeir hafa sýnt félaginu og starfsfólki þess. Með fyrirhugaðri skráningu félagsins í Kauphöll verður Síldarvinnslan með þá sérstöðu að vera eina skráða félagið með höfuðstöðvar á landsbyggðinni,“ segir Gunnþór.