Bretinn Michael Ridley, sem starfaði um langt skeið hjá fjárfestingabankanum JP Morgan, hefur verið fenginn sem ráðgjafi fjármála- og efnahagsráðuneytisins við sölumeðferð ríkisins á Íslandsbanka.

Þetta staðfestir ráðuneytið í svari til Markaðarins en Ridley mun sinna ráðgjafarstörfum út söluferlið. Áformað er að selja 25 til 35 prósenta hlut í bankanum í gegnum hlutafjárútboð og skráningu á markað um mitt þetta ár.

Ridley er vel kunnur ráðgjafarstörfum fyrir stjórnvöld en hann var á meðal nokkurra bankamanna JP Morgan sem Seðlabanki Íslands fékk sér til aðstoðar þegar bankarnir féllu í byrjun október 2008.

Þá var leitað til Ridley í ársbyrjun 2018 til að vinna tímabundið fyrir stjórnvöld að málefnum sem tengdust fjármálakerfinu og kom hann meðal annars að ráðgjöf vegna endurskoðunar þágildandi forkaupsréttar ríkisins að hlutabréfum Kaupþings í Arion banka. Ridley sat einnig fundi með ráðamönnum í mars 2019 þegar flugfélagið WOW air riðaði til falls.

Michael Ridley starfaði lengi sem bankamaður hjá JP Morgan.